09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5621 í B-deild Alþingistíðinda. (3754)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð sem ég vildi bæta í þessa umræðu um tryggingarnar. Ég held að þetta sé mál sem er mjög tímabært að við ræðum hér á þingi einmitt núna við þessar aðstæður. Hækkunin hefur verið gífurleg á milli ára. Samt sem áður er það nú einu sinni svo að það hlýtur að vera einn af þeim betri viðskiptaháttum sem menn geta stundað að að reka tryggingafélag vegna þess að strax árið eftir, þá er útkoma síðasta árs metin og tekjur næsta árs á eftir eiga að borga það upp. Og ekki er trú tryggingafélaganna mikil á þessu þjóðarátaki sem við erum að gera núna með nýjum umferðarlögum, með sérstökum nefndaskipunum og tilkostnaði af ríkisins hálfu, með tollalækkunum bæði á bílum og varahlutum, ef þau taka ekkert tillit til þess við útreikning iðgjaldsins í ár.

Hitt er hins vegar ljóst að bæði tryggingarþoli og reyndar tryggingartakinn verða að vera vissir um það að tryggingarnar bæti þau tjón sem við munum valda úti í umferðinni. Ég get vel tekið undir það sjónarmið sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að það komi til greina að taka þetta inn í orkuna, inn í bensínverðið. Það er augljóst mál að stærðfræðilega gætum við sem keyrum meira orðið meiri tjónvaldar en hinir. Ég er hins vegar gjörsamlega andvígur því sjónarmiði sem hefur verið ríkjandi að skipta landinu niður í svæði. Ég held að það sé úrelt sjónarmið. Og það kemur m.a. í ljós þegar hæstv. landbrh. segir frá iðgjaldinu sínu. Hann á að borga rétt 10 þús. kr. þegar ég á að borga 26 þús. kr. En ég er næstum því viss um það að 70-80% af hans akstri fer fram hér í þéttbýlinu. (Gripið fram í: Hann er með fullan bónus.) Ja, ég er ekki viss um að það sé eingöngu það. Það vill nú svo vel til að ég er hér með minn tryggingarseðil af tilviljun kannski, en þar eru upplýsingar sem ég veit ekki hvort allir hafa gert sér grein fyrir hvernig eru.

Vátryggingarupphæðirnar eru orðnar mjög háar og vegna slysa geta tjónin farið upp í 250 millj. kr. Það er ekki lítil upphæð. Vegna munatjóna upp í 50 millj. kr. og við ökumenn erum tryggðir fyrir 10 millj. kr. þannig að eitt tjón gæti tæknilega séð orðið 310 millj. kr. sem yrði að bæta. Iðgjaldið af þessari tryggingu, af ábyrgðartryggingu af mínum bíl, er 36 586 kr. og ég er með 55% bónus sem gefur 20 þús. kr. afslátt. Síðan bætist við ökumannstryggingin upp á 3200 kr., framrúðutrygging upp á 1405 kr., en síðan kemur að lokum söluskattur upp á 5300 kr. Samtals ber mér að greiða núna 26 336 kr.

Ég er ekki alveg viss um það að þetta séu nú eðlilegir útreikningar, t.d. með framrúðutrygginguna. Það hlýtur að minnka verulega hættan á framrúðutjónum eftir að varanlegt slitlag er komið meira og minna á allt landið. Það hlýtur að minnka verulega mikið, en tryggingin virðist hækka alveg í sama hlutfalli og annað.

Og það eru nokkur atriði sem ég hefði viljað minnast á í þessu sambandi. Það er ekki langt síðan hér fóru fram umtalsverðar umræður í Alþingi, utan dagskrár reyndar líka, um samráð ákveðinna stétta um verðlagningu og það þótti hin mesta ósvinna. Ég held að það hafi verið eggjabændur, ef ég man rétt, sem höfðu samráð um verð á framleiðsluvöru sinni. Það hefur enginn talað um þetta samráð núna hjá tryggingafélögunum. Þá er þetta allt í lagi. Það er alveg rétt sem kom fram hjá einum ræðumanni hér áðan. Hvað hafa tryggingafélögin í raun gert í samkeppni sín á milli? Hvað hafa þau gert til þess að draga úr slysum? Þau hafa auglýst örlítið, en ég vil fullyrða það að tryggingafélögin hafa ekki verið sá þátttakandi í umferðarmálum sem vert væri. Maður sér það þegar maður kemur erlendis að það er miklu meiri alls konar áróður hafður í frammi fyrir hinn almenna borgara frá tryggingafélögunum sjálfum heldur en gert er hér á landi. Og ég verð að segja það eins og er að það slær mann illilega að í landi þar sem manni finnst flestar vörur vera mjög dýrar eins og í Danmörku, ef maður ber saman verðlag á fatnaði, ýmsum lúxusvarningi og kannski jafnvel neysluvarningi, þá erum við með alveg sambærilegt verð á ýmsum hlutum, en svo skuli tryggingar bifreiða vera í þetta miklu ósamræmi. Það vekur undrun manns.

Að lokum mundi ég vilja beina þeirri eindregnu áskorun til ríkisstjórnarinnar að gerð yrði veruleg úttekt á þessum málum og reynt að kanna það hvort ekki er hægt að koma þessum málum betur fyrir en þau virðast vera í dag því a.m.k. svo lengi sem ég man aftur í tímann hefði svona umræða verið eðlileg árlega, óhugnanlega mikil hækkun á tryggingum á hverjum tíma. Og eins og ég segi þá eru rökin alltaf þessi: Tjónin á síðasta ári voru svo mikil að núna þurfum við að hækka. En það virðist aldrei neitt bætast, hvorki í rekstri né í umferðarmenningu þjóðarinnar.