09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5622 í B-deild Alþingistíðinda. (3755)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Þetta hafa verið gagnlegar umræður og það er ástæða til að þakka hv. 4. þm. Vesturl. fyrir að vekja máls á þeim. Það er ekki óeðlilegt að ný umferðarlög ásamt almenningssamgöngum hér á höfuðborgarsvæðinu og umferðaröryggi tengist þessari umræðu, svo nátengt sem það má vera, eins og komið hefur fram, þeim bifreiðatjónum sem aukist hafa svo gífurlega að undanförnu.

Það hafa orðið miklar breytingar hér á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum áratug eða við getum sagt sl. 15 árum. Nú búa 134 þúsund manns á þessu svæði. Íbúum hefur fjölgað um 30%. Á sama tíma hefur bílaeign landsmanna aukist um 200%. Það þótti gott hér áður fyrr ef fjölskylda gat eignast eina bifreið, en nú er hún orðin ómissandi þáttur í daglegu lífi hvers manns og dugar helst ekki annað en bíll fyrir hvern fjölskyldumeðlim sem náð hefur 17 ára aldri. Nú lætur nærri að það sé bíll á hverja tvo landsmenn. Og um marga vegarkafla hér á þessu svæði fara þetta 30 og upp í 50 þús. bifreiðar á dag, og þá er ég að tala um höfuðborgarsvæðið eða nágrenni Reykjavíkur. Það gefur auga leið að þessi aukna bílaeign kallar á bættar og greiðari samgöngur því að aukin umferð leiðir fljótt til vandræða nema stöðugt sé verið að lagfæra og endurbæta skipulag og umferðarmannvirki. En það er einnig ástæða til að leggja áherslu á aukið umferðaröryggi.

Hv. 7. þm. Reykv. minntist á almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og þá þál. sem var samþykkt hér fyrir nokkrum árum síðan og taldi að ekki hefði mikið verið gert í framhaldi af því máli. Að vísu var unnin fyrrihlutaskýrsla af nefnd sem sett var í það mál, en ég tek undir það að ekki virðist hafa komið mikið út úr því máli enn þá, svo þýðingarmikið sem það er. Og ég vil taka undir það með hv. 7. þm. Reykv. að til þess að draga úr notkun einkabifreiða, og þá er maður fyrst og fremst að tala um þéttbýlið, er það auðvitað meginatriði að þar séu greiðar og góðar almenningssamgöngur. Og þá þarf að ræða það í sambandi við allt höfuðborgarsvæðið. Það þarf að líta á það sem eina heild þar sem atvinnustarfsemi og ýmiss konar þjónusta er dreifð um byggðirnar.

En þó að þáttur greiðra og góðra samgangna sé mikilvægur þá er ekki síður mikilvægur sá þáttur sem snýr að þeim sem ferðast í umferðinni, eins og hér hefur komið fram m.a. hjá hæstv. ráðherra, það er umferðaröryggið og það sem snýr að ökumönnum og öðrum vegfarendum. Það er sem sagt ekki nóg að hafa gott vegakerfi, umferðarljós, hraðahindranir, gangbrautir og svo lög og reglur ef ekki er farið eftir þeim.

Hér var minnst á ný umferðarlög og ný viðhorf og það eru einmitt ýmis nýmæli í þessum lögum sem geta skipt sköpum ef menn fara eftir þessum nýju lögum. Við erum að sjá árangurinn af því þessa dagana því að alltaf fækkar þeim sem þrjóskast við að nota ökuljósin og/eða bílbeltin. Ég trúi því að ökumenn séu að gera sér betur og betur grein fyrir því hvað þessi atriði skipta miklu máli.

Ég þarf nú ekki að minnast á það hér í þessari hv. deild að það eru fimm ár síðan ég hóf baráttu fyrir notkun ökuljósa með frumvarpsflutningi hér ásamt fleiri hv. þingdeildarmönnum sem þá áttu hér sæti. Við fluttum hér frv. um þetta mál á nokkrum þingum sem alltaf endaði með þyrnirósarsvefni í hv. Nd, þar til þessi ákvæði voru góðu heilli tekin upp í nýjum umferðarlögum. Staðreyndin er sú að í Svíþjóð, þar sem ökuljós hafa verið lögleidd og í gildi árum saman, þar hafa verið gerðar rannsóknir sem sanna að slysum hefur fækkað um 13% eingöngu með tilkomu notkunar ökuljósa allan sólarhringinn allan ársins hring. Þetta vildi ég nú aðeins rifja upp af því að hér er verið að ræða um umferðaröryggið.

Ég vil einnig taka undir þýðingu þess sem hæstv. ráðherra minnti á. Það var um þál. sem ég flutti hér á síðasta þingi og var samþykkt, ég flutti hana ásamt 10 öðrum þm. úr öllum flokkum sem þá áttu sæti á Alþingi, um þjóðarátak í umferðaröryggi, en það er einmitt þessi þjóðarátaksnefnd sem hefur verið að vinna að kynningu á umferðarlögunum. Fram undan er mikil fræðslu- og áróðursherferð varðandi umferðarmálin til þess að endurhæfa alla ökumenn í umferðinni. En tilgangurinn með þessu þjóðarátaki er einmitt að gjörbreyta hegðun Íslendinga í umferðinni, jafnt ökumanna sem gangandi vegfarenda, þannig að tillitssemi við aðra vegfarendur og kunnátta sem greiði fyrir umferð og auki umferðaröryggi verði sjálfsagður þáttur í daglegri hegðun. Með þessu móti má nánast útrýma þeim umferðarslysum sem stafa af vankunnáttu, þjálfunarleysi og tillitsleysi við aðra vegfarendur.

Eins og ég sagði hér í upphafi þá er eðlilegt að þetta mál komi hér inn á Alþingi varðandi þessa mikla hækkun bifreiðatrygginga og áhyggjur manna af þeim, ekki síst með tilliti til þess, eins og ég nefndi aðan, að bíllinn er orðinn ómissandi þáttur í daglegu lifi hvers manns.

En hér var minnst á sjálfsábyrgðina. Ég er ansi hrædd um að þessi sjálfsábyrgð sem boðið er upp á vegi ekki mjög þungt varðandi lækkun iðgjalda þannig að menn sjái sér ekki mikinn hag í því að taka á sig þessa sjálfsábyrgð. Hún þyrfti að vega miklu þyngra varðandi lækkun iðgjalda til þess að hún kæmi að einhverju gagni.

Hv. 8. þm. Reykn. minntist á tryggingafélögin og það kom fram í hans máli að hann teldi að tryggingafélögin gerðu lítið til þess að draga úr slysum. Ég verð að minna á það að tryggingafélögin hafa nú einmitt gert heilmikið átak, það átak sem var gert á sl. ári, „Fararheill '87“, sem var tilraun til þess að draga úr slysum. Þá vil ég einnig nefna það og mér finnst eðlilegt að það komi hér fram að tryggingafélögin munu einmitt leggja af mörkum fjármagn til þess þjóðarátaks sem nú stendur yfir. Það er góð samvinna við tryggingafélögin, þau eiga sinn fulltrúa í þessari nefnd og þess er að vænta að þau leggi fram fjármagn í þess skyni, svo það er rétt að hafa það sem sannara reynist og láta það koma fram.

En það sem mig langar að lokum að nefna varðandi þessi háu iðgjöld er að það mætti nú gera mönnum léttbærara að greiða þessi iðgjöld með því að hafa gjalddagana fleiri. Mér finnst í raun og veru furðu sæta að tryggingafélögin skyldu ekki taka það upp um leið og þau hækkuðu iðgjöldin svona gífurlega eins og raun ber vitni að hafa gjalddagana a.m.k. fjóra á ári og jafnvel hefðu þeir mátt vera á tveggja mánaða fresti. Því að við verðum að hafa það í huga að hér er verið að innheimta fyrir fram iðgjöld en ekki eftir á. Þess vegna fyndist mér ekki óeðlilegt að það hefði verið strax gert ráð fyrir því að innheimta ekki nema hluta af iðgjöldunum í hvert sinn. Ég veit að það er sjálfsagt hægt að komast að samkomulagi við tryggingafélögin um að skipta greiðslunum niður, en ég hefði talið að það hefði verið eðlilegt að útbúa seðlana þannig að menn væru ekki að greiða nema fyrir tvo til þrjá mánuði í senn.