09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5625 í B-deild Alþingistíðinda. (3756)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa utandagskrárumræðu eins og fleiri hafa gert hér. Ég held að það hafi vantað svolítið í þessa umræðu að við gerðum okkur grein fyrir því um hvers konar tryggingu er að ræða. Hérna er um lögboðna tryggingu að ræða en ekki frjálsa eins og er um flestar aðrar og það er Alþingi sem setur tryggingafélögunum þau boð að þau skuli hafa þessa tryggingu og einnig hvernig tryggingaskilmálar eiga að vera. Þetta atriði gerir það að verkum að tryggingafélögin eiga um mjög fátt að velja varðandi það að hafa sérkenni fram yfir önnur tryggingafélög þannig að samkeppni á þessu sviði, um lögboðnar tryggingar, getur ekki verið mikil.

Það sem hér hefur aðallega verið sagt, fyrir utan síðasta ræðumann, er það að sökinni hefur verið komið svolítið á tryggingafélögin. En ég held að sökina megi frekar leiða til ríkisvaldsins að því leyti til að af tryggingu sem hækkar núna úr 20 þús. kr. í 40 þús. kr., nemur hækkun söluskatts af þessari upphæð um 2500 kr. Þarna er um töluverða fjárhæð að ræða. Og af þessum 40 þús. kr. eru 10 þús. kr. sem greiðast til ríkisins.

Við vorum að heyra það í fréttunum í morgun í sambandi við öryggismál, sem hér hefur mikið verið rætt um, að með síðustu aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefur framlag til vegamála verið lækkað. Hefur það bitnað verulega á Reykjavíkurborg og hefur borgin núna ákveðið að draga úr framkvæmdum upp á 125 millj. kr. Þetta er töluvert há upphæð. Ég held að við þurfum að átta okkur betur á því hvað við getum gert á þessu sviði fyrir sveitarfélögin til þess að umferðaræðar geti verið eðlilegar.