09.03.1988
Neðri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5628 í B-deild Alþingistíðinda. (3759)

324. mál, Öryggismálanefnd sjómanna

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um öryggismálanefnd sjómanna. Meðflutningsmenn eru hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, Sverrir Hermannsson, Kristín Einarsdóttir, Árni Gunnarsson, Geir H. Haarde og Guðrún Helgadóttir.

Markmið þessara laga um skipan öryggismálanefndar sjómanna er að draga úr slysum á sjó með bættu öryggi og aðbúnaði sjómanna.

Það er miðað við að samgrh. skipi þriggja manna nefnd til fjögurra ára, einn fulltrúa frá samtökum sjómanna, einn frá samtökum útgerðarmanna og formann nefndarinnar án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

Hlutverk öryggismálanefndar sjómanna á að vera að beita sér fyrir auknu öryggi sjómanna með fræðslu og upplýsingum um fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir slys á sjómönnum við störf og aðgerðir til að bæta aðbúnað sjómanna til dvalar og vinnu á skipum. Það er ætlast til að öryggismálanefnd sjómanna verði stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um öryggismál sjómanna, að nefndin veiti aðstoð og leiðbeiningar um öryggismál sjómanna og fylgist með og nýti reynslu og þekkingu annarra þjóða á sviði öryggismála sjómanna. Grundvöllurinn fyrir starfi slíkrar nefndar er tekjustofn og við það er miðað að tekjur öryggismálanefndar sjómanna byggist á því að tekið verði gjald af vátryggingariðgjöldum íslenskra skipa og slysatryggingum íslenskra sjómanna á íslenskum skipum. Það er miðað við að þetta gjald verði 0,8% af iðgjöldum skipa og slysatrygginga sjómanna. Á árinu 1986 námu þessar greiðslur rúmlega 800 millj. kr., og miðað við 0,8% hefðu gjöld til starfs nefndarinnar af þeim greiðslum numið liðlega 6 millj. kr.

Öryggismálanefnd sjómanna er nafn sem ekki er ókunnugt á hv. Alþingi. Matthías Bjarnason, fyrrv. samgrh., skipaði veturinn 1984 nefnd í kjölfar Helliseyjarslyssins austur af Vestmannaeyjum. Nefndinni var falið að fjalla alhliða um átak í öryggismálum sjómanna. Nefndina skipuðu níu alþingismenn. Hún starfaði til haustsins 1986 og skilaði tugum tillagna eftir samstarf við má segja alla aðila innan sjávarútvegs í landinu og björgunarmála. Margar þessara tillagna hafa verið framkvæmdar og aðrar eru í vinnslu.

Hluta þess starfstíma sem þingmannanefndin starfaði, sem gekk undir nafninu öryggismálanefnd sjómanna, hafði hún peningum úr að spila, peningum sem komu til við uppstokkun sjóðakerfisins og það sýndi sig að þessir peningar skiptu mjög miklu máli í því átaki og þeim áróðri sem var rekinn þá fyrir átaki í öryggismálum sjómanna. Þeir skiptu sköpum um það að hægt var að fylgja málum eftir og skilningur og áhugi á öryggismálum sjómanna jókst, bæði til sjós og lands. Tvímælalaust. Íslenskir sjómenn búa við hæsta slysatíðni sjómanna allra nágrannalanda Íslendinga og er slysatíðni óhemjuhá. Það er ljóst að það mun taka mörg ár að auka skilning sjómanna sjálfra á mikilvægi þess að vera vel á verði í öllu er lýtur að öryggi sjófarenda og efla virka þátttöku þeirra. Jafnframt hlýtur það eins að taka langan tíma að auka þennan skilning landmegin.

Áróðursherferð þingmannanefndarinnar undir forustu Péturs Sigurðssonar, fyrrv. alþm., sannaði að það er hægt að gera stóra hluti í þessum efnum ef fjármagn er tryggt til verkefnisins. Hér er ætlast til fyrirbyggjandi aðgerða, áróðurs á opinberum vettvangi sem beint sé til þeirra sem á brennur. Um er að ræða vettvang þar sem stutt getur verið á milli lífs og dauða og mikilvægt að alls sé gætt sem unnt er í öryggismálum sjómanna. Þess vegna getur markaður tekjustofn ráðið úrslitum um árangur. En að mati flm. er jafnframt mjög eðlilegt að taka á í þessum efnum með tilliti til tíðni slysa á sjó og með tilliti til þess að nær 80% af gjaldeyristekjum Íslendinga koma frá sjávarútvegi.

Sá tollur sem hafið tekur í harðri baráttu sjómanna við Ægi konung er ótrúlega mikill og nær daglega eiga sér stað slys um borð í bátaflotanum þar sem menn slasast það mikið að þeir eru frá vinnu í tvær vikur eða meira. Þetta eru ekki slys sem eru í fréttum daglega þó ýmislegt fari inn í fréttirnar af minna tilefni. Þetta eru slys sem verða um borð í stærsta atvinnutæki Íslendinga, bátaflotanum, og kosta mikla peninga og mikil forföll vinnandi manna. Auk þess ferst fjöldi sjómanna ár hvert í hafi. Það er því til mikils að vinna og ekki óeðlilegt að tryggingum skipastóls landsmanna sé beitt í þessu efni, að af þeim sé tekið gjald til þessa viðfangsefnis því að aukinn áróður og fræðsla í öryggismálum sjómanna ætti að draga úr slysum og mannsköðum á sjó.

Öryggismál sjómanna eru viðamikill málaflokkur sem lýtur bæði að fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir slys á sjó og aðgerðum til að bæta gerð og búnað skipa. Þar undir fellur m.a. hönnun og smíði skipa, búnaður þeirra, stöðugleiki og fjarskipti, þjálfun og menntun sjómanna og skipulag leitar og björgunar.

Það er ákveðin verkaskipting í landinu í dag í þessum efnum. Siglingamálastofnun sinnir ákveðnum þáttum, stýrimannaskólar sinna ákveðnum þáttum, Slysavarnafélag Íslands og björgunarsveitir sinna ákveðnum þáttum, Landhelgisgæsla Íslands sinnir ákveðnum þáttum. Þannig er vissulega til staðar nokkurt skipulag. En það er enginn aðili sem hefur fjármagn til að sinna áróðri sem nauðsynlegur er í nútímaþjóðfélagi til þess að árangur náist ef menn vilja í alvöru taka á í þessum málum.

Ein af fjölmörgum tillögum sem öryggismálanefnd sjómanna, þingmannanefndin, setti fram fyrir tveimur árum, haustið 1986, var um slysavarnaskóla og björgunarskóla og eldvarnaskóla. Slysavarnafélag Íslands hefur sinnt ákveðinni fræðslu, námskeiðahaldi í öryggismálum sjómanna sem Slysavarnafélagið kallaði Slysavarnaskóla og verið þar má segja verktaki fyrir íslenska ríkið því fjármagn til skólans hefur farið í gegnum samgrn. Þannig hefur hann verið byggður upp á endurbótum, með því að nýta hið gamla varðskip Þór sem nú gengur undir nafninu Sæbjörg, og jafnframt að nýta húsakost Slysavarnafélags Íslands í vesturhöfninni.

Þetta er eitt af mörgum málum sem öryggismálanefnd sjómanna mundi koma til liðs við að einhverju leyti með áróðri og kynningu á starfi og vettvangi slíks skóla. Hér í hv. Alþingi var í gær kynnt þáltill. frá þm. Borgarafl. um björgunar- og sjóslysaskóla, ágætis till., en það mál sem þar er fjallað um er þegar í vinnslu og er gott að það er komið á skrið. Undanfarin ár hefur starfað fræðslunefnd öryggismála sjómanna sem hefur unnið að þessu starfi, uppbyggingu slysavarnaskóla, og fyrir nokkru skipaði samgrh. nefnd til þess að setja reglur og gera tillögur um fyrirkomulag slysavarnaskóla sjómanna. Þar er jafnframt reiknað með einum stórum þætti sem vert er að nefna. Það er einnig reiknað með aðstöðu til kennslu í eldvörnum sem því miður er ekki til staðar í landinu í dag en er nauðsynlegt í framtíðarskipan þessara mála.

Eldvarnir eru einn mikilvægasti þátturinn í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn slysum á sjó og landi. Og það er gott dæmi um þátt í slíkum skóla sem mundi nýtast bæði landmönnum og sjómönnum. Það eru u.þ.b. 1000 atvinnufyrirtæki íslensk á siglingu í kringum landið og þar er eldhætta einn alvarlegasti þátturinn sem upp getur komið og því ástæða til að tvinna þarna saman og hafa slíkt á einum stað. Ber að þakka það frumkvæði sem Slysavarnafélag Íslands hefur haft í þessum efnum til að skipuleggja fyrir landið í heild.

Um leið og varðskipið gamla, Sæbjörg nú, er notað til þess að hýsa slíkt starf sem ég hef rætt hér um, þá er þar líka ákveðið verndarstarf með því að varðveita hið gamla skip sem er eitt íslenskra varðskipa eftir í landinu sem tók þátt í öllum þorskastríðunum.

Þess er því að vænta að sú nefnd sem þegar hefur hafið störf skili innan tíðar tillögum um slysavarnaskóla fyrir Íslendinga í heild. Þar skiptir miklu máli að menn vinni saman, að ekki sé att saman aðilum sem eru að vinna að björgunarstörfum hér og þar um landið heldur að menn vinni á einu bretti því hér er um slíkt stórmál að ræða að það má ekki slíta það í sundur og skipta upp, hvorki eftir stöðum né aðilum sem vinna að björgunarstörfum.

Það hefur margt verið gert vel í slysavörnum á sjó, í öryggismálum sjómanna. Sett hafa verið lög og reglur sem gera auknar kröfur til gerðar og búnaðar skipa en ekki síður til útgerðarmanna og áhafna skipanna. Lögum og reglum þarf hins vegar að fylgja eftir. Aukinn öryggisbúnaður skipa og fræðsla sjómönnum til handa hefur skapað forsendu fyrir auknu öryggi þeirra sem síðan ætti að leiða til fækkunar slysa á sjó. Sjómenn sjálfir hafa sýnt þessum málum aukinn áhuga. Þrátt fyrir þetta hefur sjóslysum ekki fækkað og er mikilvægt að leitað sé allra leiða til að fækka slysum til sjós.

Það er í rauninni eðlilegur þáttur í öllum tryggingagreiðslum að hluti af tryggingargjaldi fari til fyrirbyggjandi aðgerða. Og það er eðlilegast í þessu sambandi að slíkt sé á einni hendi, nefndar sem í eru fulltrúar þeirra sem á brennur auk opinberra fulltrúa og að þarna sé unnið markvisst yfir landið í heild því þannig er einungis hægt að ná árangri svo um munar.

Það hafa verið haldnar ráðstefnur um öryggismál sjómanna á undanförnum árum, 1985 og 1987. Þær voru vel sóttar ekki síst af sjómönnum sjálfum og gagnlegar tillögur komu fram, atriði sem væntanlega verða framkvæmd innan tíðar. En allt kostar þetta baráttu og það má ekki gleyma því að það kostar peninga að kynna og reka áróður fyrir því sem á að bæta og breyta. Þessi till. gerir ráð fyrir því að úr því sé leyst með þeim lögum sem hér eru á borði og ættu að vera mjög til hagsbóta fyrir öll öryggismál sjómanna í landinu.

Að lokinni þessari umræðu óska ég að frv. verði vísað til nefndar.