09.03.1988
Neðri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5632 í B-deild Alþingistíðinda. (3761)

324. mál, Öryggismálanefnd sjómanna

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Það er kannski ekki ástæða til að rugla saman þeim tveimur málum sem hér hefur verið vikið að, annars vegar slysavarnaskóla og hins vegar öryggismálanefnd sjómanna sem ætlað er að sé áróðursnefnd er vinni með hinum ýmsu aðilum sem að öðru leyti starfa að björgunar- og öryggismálum í landinu. En af því að varpað er fram þeirri spurningu hvers vegna ekki séu umræður um þetta mál, þá held ég að það sé einfaldlega vegna þess að þetta er borðleggjandi mjög jákvætt og gott mál sem menn hljóta að vera sammála um. Þetta er ekki flókið mál. Þetta er eitt af þeim málum sem þarfnast ekki í sjálfu sér mikillar umræðu. Þarna er spurning um að afgreiða mál og koma því í gagnið. Og ég held að það sé fyrst og fremst skýringin á því að ekki teygist úr umræðum eins og oft vill verða. Hér er um að ræða mál sem allir geta verið sammála um.