10.03.1988
Sameinað þing: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5640 í B-deild Alþingistíðinda. (3770)

334. mál, jarðakaup

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Daníelsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svarið og gleðst yfir þeirri aukningu sem orðið hefur á síðustu árum á kaupum Jarðasjóðs.

En ég endurtek að í sumum tilfellum auðveldar það nýtingu jarða að þær séu í eigu ríkissjóðs og einnig er nauðsynlegt að leysa úr málum þeirra bænda sem ekki hafa tök á að lifa á jörðum sínum vegna þeirra mistaka er urðu þegar fullvirðisrétti var úthlutað. En þó ber að taka tillit til margra þátta þegar ákveðið er hvaða jarðir skal kaupa, svo sem hvort ábúendur eiga möguleika á að stunda vinnu í nágrenninu. Það er nauðsynlegt að marka heildarstefnu með tilliti til byggðaþróunar í landinu og er þetta einn liður sem taka þarf tillit til þannig að jarðir séu ekki keyptar af handahófi, svo byggð grisjist ekki til baga. Við stöndum frammi fyrir gagngerri endurskipulagningu í þessari undirstöðuatvinnugrein og því er mikilvægt að huga að hverju skrefi sem stigið er.