02.11.1987
Neðri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

54. mál, útflutningsleyfi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. svaraði að nokkru því sem mér fannst heldur gáleysisleg ummæli hjá hv. 5. þm. Reykv. um þátt hans, þ.e. hæstv. utanrrh., í síldarsölusamningum. En látum það liggja á milli hluta. Það er að sjálfsögðu þannig að utanrrh. á hverjum tíma kemur inn í málin þegar um stóra og mikilvæga samninga er að ræða, hefur alltaf verið og mundi verða hvort sem þessi kerfisbreyting kæmist á eða ekki. Það eru að sjálfsögðu engin rök hvorki með né á móti henni sem slíkri.

Ég er ekki sammála hv. 5. þm. Reykv. um það að frammistaða Íslendinga á sviði útflutnings sé slök. Ég held að lífskjör þjóðarinnar sýni að það hefur tekist í heildina talið þokkalega að koma okkar framleiðslu á markað. Ég held að ekki sé hægt að mæla á móti því og þar hafa reyndar að margra manna dómi verið unnin afrek eins og þau að halda mun hærra verði og ná miklum samningum um vörur héðan árum saman í harðri samkeppni við aðra. En látum það sömuleiðis liggja á milli hluta.

Herra forseti. Ég tel að þessi umræða hafi verið þörf. Það er von mín að þeir hv. þingdeildarmenn sem hér hafa setið og fylgst með henni séu kannski einhvers fróðari um það sem mælir með þessum breytingum og sem mælir á móti þeim. Mín ástæða til að vekja hér spurningar var ekki síst sú að ég vildi fá fram rökin, hver þau væru og hversu veigamikil þau væru, vegna þess að mér fannst það ekki hafa komið fram í umræðunni áður.

Ég verð svo að segja að lokum að mér kemur tregða hæstv. viðskrh. til að taka þátt í þessari umræðu nokkuð á óvart. Ég beindi í tvígang til hans spurningum eða lýsti því yfir að ég teldi æskilegt að fá hans viðhorf fram undir umræðunni en það hefur ekki gerst. Sömuleiðis hefur ekki heyrst eitt orð frá öðrum samstarfsflokki hæstv. utanrrh., Sjálfstfl., og það vekur upp vissar spurningar um það hvort þetta sé hugsanlega sérstakt prívatmál hæstv. utanrrh. og áhugaefni.