10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5646 í B-deild Alþingistíðinda. (3782)

289. mál, mat á heimilisstörfum

Flm. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að flytja ásamt öðrum þm. Borgarafl. till. til þál. á þskj. 591 um mat á heimilisstörfum, svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á forsrh. að fela Þjóðhagsstofnun að gera úttekt á verðmætagildi heimilisstarfa í þjóðfélaginu í heild og meta gildi þeirra með tilliti til þjóðartekna eins og þær eru reiknaðar í dag.“

Í grg. með þessari tillögu segir:

„Hið opinbera hefur um langan tíma litið fram hjá efnahagsgildi heimilanna fyrir þjóðfélagið og þeir sem þessi störf stunda njóta ekki jafnstöðu hjá hinu opinbera á við þá þegna sem stunda störf á hinum almenna vinnumarkaði. Fram til þessa hafa þessi störf aðallega verið unnin af konum og hefur vanmatið því aðallega beinst að þeim sem heild. Ætla má af þeim sökum að litið sé á konur sem ódýrt og óæðra vinnuafl, en þar gæti ein skýringin verið á því hve konur eiga almennt erfitt uppdráttar á vinnumarkaðnum þrátt fyrir jafnréttislögin og yfirleitt stunda þær lægst launuðu störfin í þjóðfélaginu.

Seint verður hægt að meta til fjár ástvinasamband á heimilum og heimilismenningu sem stuðlar að kærleika, andlegri velsæld og þroska manna og skilar sér í betra mannlífi og betra þjóðfélagi. Sú aðferð, sem notuð er við útreikninga þjóðarframleiðslunnar, gerir ekki ráð fyrir þeirri vinnu sem innt er af hendi á heimilunum.

Þjóðarframleiðslan mælir hagsæld þjóðarinnar á mælikvarða markaðsbúskaparins fyrst og fremst. Þannig er undanskilinn nær öll vinna sem framkvæmd er án þess að gjald komi fyrir og vega heimilisstörf þar þyngst á metunum. Þessi óverðlagða vinna liggur utan garðs í þjóðhagsreikningunum, þótt mönnum sé ljóst að þessar athafnir skipti miklu þegar meta skal hagsæld fólksins í landinu.

Gerð þjóðhagsreikninga hefur þann tilgang að meta árangur efnahagsstarfseminnar í landinu bæði fyrir liðna tíð og önnur lönd, en samkvæmt skilgreiningunni við þessa útreikninga er þáttur ólaunaðrar vinnu ekki talinn með efnahagsstarfseminni þó að mikilvægi þessara athafna sé óumdeilt meðal flestra hagfræðinga Vesturlanda.

Í nútímaþjóðfélagi, þar sem margt er metið til fjár og allt miðast við að þjóna þörfum markaðarins, er ekki nema eðlilegt að hin óverðlögðu heimilisstörf njóti lítillar virðingar. Spyrja má hvort þeir sem stunda heimilisstörf þurfi að mynda „þrýstihóp“ til þess að ná fram jafnstöðu gagnvart hinu opinbera á við útivinnandi þegna þjóðfélagsins. Það hlýtur að vera krafa jafnréttisþjóðfélagsins að hið opinbera sé ekki að mismuna þegnum sínum fjárhagslega eftir því hvort þeir kjósa að sinna störfum á heimilinu eða utan þess.“

Hæstv. forseti. Ég vil láta þess getið að þessi þáltill. er flutt að ósk og eftir undirbúning hv. varaþm. Borgarafl., frú Ragnheiðar Ólafsdóttur, í samstarfi við konur sem eru ekki allar flokksbundnar í Borgarafl. né heldur í pólitískum flokkum, en þær hafa sameiginlega séð um undirbúning að tillögunni.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til síðari umr. og til hv. félmn.