10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5653 í B-deild Alþingistíðinda. (3788)

289. mál, mat á heimilisstörfum

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þori varla að tala meira, ég syndgaði svo upp á náðina áðan, en ég vil segja hv. 5. þm. Reykv. að ég tók tillögu hans í fyllstu alvöru og veit að hún er borin fram í fyllstu alvöru.

Honum fannst ég vera að hnjóða í karlmenn áðan. Ég var ekki að því, alla vega ekki af ráðnum hug. En við skulum ekki gleyma að það sem kallað er hefðbundin kvennastörf er allt framlenging eða útfærsla á heimilisstörfum og við sjáum öll að konur eru láglaunahópur í þjóðfélaginu hvar sem þær starfa og launin endurspegla að þessi störf eru vanmetin og lítils virt. Ég sný ekki aftur með það, hv. 5. þm. Reykv.