10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5659 í B-deild Alþingistíðinda. (3795)

304. mál, verðtrygging

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Fyrir rúmum þremur árum lögðu þm. Kvennalistans fram till. á þingi um að breyta verðtryggingu lána. Í þeirri till. var gert ráð fyrir að miða vísitöluna við kauptaxta. Meginhugsunin á bak við það var sú að launafólki væri mikið öryggi í því að geta reiknað með að þurfa að vinna jafnmargar vinnustundir fyrir greiðslu láns og virði þess var í vinnustundum þegar lánið var tekið. Hefði þessi leið verið valin 1983 er alveg víst að gjaldþrotin hefðu ekki orðið svo mörg sem raun ber vitni.

Sl. haust beindi hv. þm. Kristín Halldórsdóttir fsp. til hæstv. viðskrh. um hvort einhver áform væru um að endurskoða samsetningu lánskjaravísitölu eða taka upp aðra viðmiðun við verðtryggingu. Er því alveg ljóst, herra forseti, að kvennalistakonur hafa lengi talið þörf á endurskoðun viðmiðunarverðtryggingar. Það er í hæsta máta óeðlilegt að sala á vinnuframlagi sé á föstu verði á meðan allar fjárskuldbindingar eru verðtryggðar. Það er því ánægjulegt að nú eru fleiri og fleiri að vakna upp og telja að nú þurfi að taka á þessum málum. Ég tek því undir það, sem kemur fram í þessari till., að endurskoða þurfi grundvöll verðtryggingar lána og verðbóta.

En það eru ekki eingöngu þm. stjórnarandstöðunnar sem hafa lagt fram till. á þinginu varðandi þessi mál. Fyrr í vetur ræddum við einmitt frv., sem hv. 5. þm. Reykv. minntist á, sem tengdist þessum málum. Það var frv. sem hv. þm. Eggert Haukdal lagði fram. Á dagskrá þessa fundar er líka þáltill. sem er mjög svipuð þeirri sem við erum nú að ræða. Vonandi verður fljótt tekið á þessum málum og þeim vísað til betri vegar.