10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5661 í B-deild Alþingistíðinda. (3797)

304. mál, verðtrygging

Vilhjálmur Egilsson:

Ég vek athygli á nokkrum þáttum í sambandi við till. sem hér liggur fyrir.

Í fyrsta lagi er rétt að rifja upp að þegar lánskjaravísitalan var tekin upp á sínum tíma stóðu menn frammi fyrir því hvort væri betra að hafa kerfi þar sem lán væru verðtryggð með lágum nafnvöxtum í verðbólguþjóðfélagi eða að hafa kerfi þar sem vaxtaprósentan var upp á einhverja tugi prósenta, 50–60%. Ef við skoðum hlutina eins og þeir eru í dag erum við annars vegar með nafnvexti upp á 30–40% eða verðtryggð lán með kannski 9% vöxtum eins og er í bönkunum. Niðurstaðan af því varð sú að það væri þrátt fyrir allt betra að hafa einhverja verðtryggingu og lægri nafnvexti en háa nafnvexti. En það gekk ekki annað en að hafa nafnvextina svo háa til þess að þeir væru yfir verðbólguprósentunni.

Hins vegar er spurning um hvaða grunn á að miða við ef verðtryggingin er í gangi á annað borð, hvort eigi að miða við laun eða annað. Ég tel að það sé í mörgum tilfellum verra að nota laun í grundvellinum en ekki. Ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að það er spurning við hvaða laun á að miða. Á að miða við þau laun sem raunverulega eru greidd alveg eins og í dag er miðað við verð sem er raunverulegt á mörkuðum? Það er verðupptaka í framfærsluvísitölu, það er verðupptaka í byggingarvísitölu og þá þyrfti væntanlega að vera einhver launaupptaka á vegum Hagstofunnar í launavísitölu. En þá stöndum við frammi fyrir því að slík vísitala mundi á lengri tíma hækka meira en t.d. framfærsluvísitala eða lánskjaravísitala eða byggingarvísitala vegna þess að þrátt fyrir allt, ef maður lítur á t.d. tíu ára tímabil eða eitthvað slíkt, eru þó kjörin alltaf að batna og slík vísitala mundi þá hækka meira en önnur.

Ef miða ætti við kauptaxta eða lágmarkslaun eða eitthvað slíkt held ég að það yrði fyrst gaman að lifa fyrir þá sem störfuðu í Garðastrætinu vegna þess að það yrði alveg afleitt fyrir verkalýðshreyfingu að standa í samningum upp á það að öll lán í þjóðfélaginu ættu að hækka í takt við þá samninga sem verið er að gera á hverjum tíma. Við getum ímyndað okkur hvernig Guðmundur J. og Ásmundur færu að ef þeir væru að leggja til að laun hækkuðu um 10% og á sama tíma ættu öll lán í þjóðfélaginu að hækka um 10%. Sama er ef ætti að taka einhverja viðmiðun við lágmarkslaun eða eitthvað slíkt. Hvað hefði fólk sagt í fyrra, þegar var verið að hækka lægstu laun í þjóðfélaginu um 30% eða rúmlega það, ef á sama tíma hefðu kannski öll lán hækkað líka um 30%? Svo maður tali ekki um þegar menn standa frammi fyrir rugltillögum eins og að hafa lögbundin lágmarkslaun og hækka þau á einu bretti um kannski 70–80%. Vilja menn að lán hækki líka um 70–80% á sama tíma?

Það eru á þessu margar hliðar og ég held að þessi till. hafi ekki verið hugsuð til enda, en þegar upp er staðið og menn fara að hugsa þessi mál held ég að niðurstaðan sé sú þrátt fyrir allt að það sé betra að miða við lánskjaravísitöluna eins og hún er í dag þannig að hún byggist á framfærslukostnaði og byggingarvísitölu í stað þess að taka launin inn í. Ég held að það yrði ekki til bóta.