10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5663 í B-deild Alþingistíðinda. (3799)

304. mál, verðtrygging

Vilhjálmur Egilsson:

Herra forseti. Ég kem aðeins hér upp til að árétta að það virðist vera viss misskilningur hér á ferðinni. Málið er einfaldlega það að laun hækka með öðru móti en með vísitölu og þó að verðbótavísitala launa hafi verið tekin úr sambandi hækka laun þrátt fyrir það með samningum um flatar prósentuhækkanir, með sérstökum samningum við einstaka hópa og síðan ekki síst með hinu margfræga launaskriði. Menn geta síðan deilt um hvaða laun þeir vilja miða við og í raun og veru, ef ætti að taka þetta inn í vísitöluna, mundi væntanlega verða miðað við laun eins og þau eru greidd í þjóðfélaginu og eins og þau hækka með launaskriði og öllu. Ef svo er ekki þyrfti að miða við einhverja kauptaxta. Það sem ég var að benda á er að ef verkalýðshreyfingin stendur frammi fyrir því að þurfa samtímis að semja um að launataxtar orki á lán hlýtur það að hafa áhrif á hvaða kröfur hún gerir því að sumt fólk er í þeirri stöðu að það er betra fyrir það að fá þá minni launahækkanir og minni hækkanir á lánin. Þetta er einfaldlega það sem ég var að benda á.