02.11.1987
Neðri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

54. mál, útflutningsleyfi

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann hefur heyrt eitthvað illa það sem ég sagði. Ég var ekki á neinn hátt að gera lítið úr þeim aðilum sem hafa staðið í útflutningi eða gefa í skyn að þeirra starfsemi hafi verið slök á einn eða annan hátt. Ég fullyrði hins vegar vegna eigin reynslu að kerfið svokallaða, ríkisvaldið, hefur komið í veg fyrir eðlilega samkeppni einstaklingsins við þann útflutningsmáta sem við höfum hingað til búið við. Ég bið hv. þm. að leiðrétta mig ef rangt er með farið, að það séu afskaplega fáir viðskiptafræðingar sem hafa komið út úr Háskóla Íslands, sem er æðsta menntastofnun okkar í bæði innflutningi og útflutningi og öðrum málum sem snúa að viðskiptum, og farið í útflutning á eigin vegum. Ég held að það séu afskaplega fáir. Ég veit ekki um einn einasta. Það getur vel verið að þeir séu til — það er rétt að hafa einhverja smugu þannig að maður loki sig ekki inni í fullyrðingum — en ég held að það séu afskaplega fáir sem hafa fengið til þess tækifæri þótt þeir hafi fengið menntunina. Þjóðin er búin að kosta miklu til í langskólanám fyrir þessa menn til þess að verða þjóðinni að gagni en þeir verða henni ekki að gagni að öðru leyti en því að þegar þeir verða sjálfstæðir einstaklingar snúa þeir sér að útflutningi annarra þjóða til Íslands, þ.e. innflutningi. Þetta er stóralvarlegt mál. Við erum að mennta á dýrasta máta í gegnum Háskóla Íslands útflytjendur annarra þjóða en ekki útflytjendur okkar. Og hvað skeður þá? Til þess að þeir geti þó unnið fyrir sér fara þeir inn í kerfið sjálft, vinna fyrir hið opinbera. Það er leiðin og það er alvarlegt.

Ég vil sem sagt að frv. sem liggur fyrir verði breytt þannig að ráðuneytið starfi hlutlaust en ekki sem eins konar skjöldur kerfisins sem búið er að byggja upp á löngum tíma. Ég vil að einstaklingurinn fái tækifæri til að sýna að hann getur útvegað sama verð eða jafnvel hærra verð og með sama öryggi og samtökin. Því það er vitað mál að það sem einstaklingurinn hefur að selja hér án mikillar fjárfestingar erlendis kemur allt til baka, en ágóðinn af því sem samtökin eru að selja erlendis, við skulum taka sölusamtökin í Bandaríkjunum, fær ekki að koma til baka vegna þess að útflutningur á peningunum sjálfum, ágóðanum, er ekki leyfður frá Bandaríkjunum. Við erum því að fjárfesta í vinnumarkaðinum þar með síaukinni starfsemi, verksmiðjustarfsemi o.s.frv. Við skulum átta okkur á því hvað er að gerast. Þess vegna væri betra að fullvinna vöru hér en að selja hráefnið til útlanda. Gefið einstaklingnum frelsi til að vera í samkeppni við kerfið en gerið ekki ráðuneytin, eins og í þessu tilfelli utanrrn., að einhvers konar skildi fyrir það sem gamalt er og löngu úrelt sölukerfi, sem við höfum, þó svo að það gangi sæmilega vel.