10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5663 í B-deild Alþingistíðinda. (3801)

304. mál, verðtrygging

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég held að hv. 2. þm. Norðurl. v. hafi eitthvað misskilið þetta. Í gær var til umræðu í Ed. utan dagskrár hækkun á bifreiðatryggingum. Sú hækkun þýðir að húsnæðislán í landinu hækka um hálfan milljarð. Hv. þm. var að blanda saman slíku þegar hann var að tala um þessa till. Það er staðreynd hins vegar að kaupgjaldsvísitala, sem hlýtur að vera alveg jafnrétt gerð eins og lánskjaravísitala, hefur ekki haldið sama verðgildi og lánskjaravístalan. Það er búið að reikna það út. (VE: Þetta er ekki rétt.) Það hefur verið reiknað út að lánskjaravísitalan 1986 er 1448 stig og þá er kaupgjaldsvísitalan 968 stig. Það hefur verið reiknað út af þeim háu herrum sem stjórna nú Hagstofu, Seðlabanka og öðrum stofnunum og ég ætla ekki að vefengja þá útreikninga. Það fer enginn að efast um að launataxtar valdi því að lánskjaravísitalan hækki. En málið snýst ekkert um það. Málið snýst um það að lánin sem fólk tekur séu greidd með samsvarandi verðgildi krónunnar og í launum. Það hefur ekki verið gert. Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir að þetta misgengi er ein aðalástæðan fyrir því að menn eru svo illa staddir í húsnæðislánamálum. Ég hef ekki heyrt áður bornar brigður á að Hagstofan, Seðlabankinn og allar þessar stofnanir hafi reiknað þessar vísitölur rangt út, má þó vel vera að það megi gera það, en samkvæmt því og mönnum ber saman um það hefur lánskjaravísitalan farið langt fram úr því sem almennt hefur gerst á launamarkaðnum þannig að menn hafa ekki haldið í í kaupi á við lánin. Ég gæti út af fyrir sig fært sönnur á þetta hvenær sem er.

Ég ætla bara að ítreka að misgengi á launum og lánskjörum er óviðunandi og hlýtur að verða að taka á því máli sérstaklega.