10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5671 í B-deild Alþingistíðinda. (3807)

288. mál, efling Ríkisútvarpsins

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja fáein orð í belg í umræðu um þá till. til þál. sem hér liggur fyrir. Ég hygg að þetta sé góð og þörf till. Ég held að það sé eðlilegt, æskilegt og nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga taki málefni Ríkisútvarpsins nokkuð reglulega til umræðu. Það kann að vera að það sé hlutverk útvarpsráðs að fjalla um eitthvað af þeim atriðum sem hér er varpað fram, en ekki vil ég draga úr því að kosin sé sérstök nefnd sem um þessi mál fjalli og ekki get ég séð annað en að það geti orðið til góðs og orðið til eflingar Ríkisútvarpinu.

Ég held að það blandist engum hér inni hugur um nauðsyn þess að Ríkisútvarpið sé öflugt. Hlutverk Ríkisútvarpsins er auðvitað mjög margþætt í okkar þjóðfélagi. En ég held að það blandist heldur engum hugur um að einmitt á þessum breytilegu umsvifatímum í fjölmiðlun í landinu hafa Íslendingar ýmislegt gert til að reyna að standa vörð um Ríkisútvarpið og efla það. Ríkisútvarpið hefur nýlega hafið starfsemi í nýjum og glæsilegum húsakynnum þar sem starfsaðstaða er væntanlega öll verulega bætt og með allt öðrum hætti en áður hefur verið. Ég hygg að það sýni nokkuð hug þjóðarinnar og þeirra sem með völd fara til þessa fyrirtækis. Afnotagjöld Ríkisútvarpsins hafa og hækkað talsvert þó að ég heyri á mörgum að þeim þykir Ríkisútvarpið hafa úr litlu að spila.

Hitt er líka rétt að samhliða þessu, sem ég vil alls ekki gera lítið úr, stórbættri aðstöðu Ríkisútvarpsins, hefur samkeppni stórlega aukist um fjölmiðlun. Nýjar útvarpsstöðvar hafa hafið starfsemi sína. Ég hygg að það sé af hinu góða, alveg tvímælalaust af hinu góða bæði fyrir Ríkisútvarpið og þjóðina sem heild. Ég hygg að með því hafi nýir straumar komið inn í þessa starfsemi og örvað menn til frekari átaka. Á því held ég að sé enginn vafi. En e.t.v. stöndum við á talsverðum tímamótum ef við leyfum okkur horfa þó ekki væri nema örstutt fram til framtíðarinnar. Það er enginn vafi á því að heimurinn er að dragast mikið saman, fjarskiptahnettir hafa meiri og sterkari áhrif í fjölmiðlaheiminum, nánast með hverjum deginum. Á næstu mánuðum og árum mun hellast yfir íslensku þjóðina flóð af upplýsingum og áhrifum nánast alls staðar að úr heiminum. Það er enginn vafi á að þá þurfa Íslendingar að takast á við að varðveita tungu sína og menningu frammi fyrir þeim feiknalegu áhrifum þegar heimurinn dregst saman og allar þessar upplýsingar með aukinni tækni eiga greiðari aðgang á fjölmörgum tungumálum, alls konar áhrif víðtæk og mikil munu berast hér inn. Ég hygg að það verði eldskírn íslenskrar tungu og menningar að fást við þau tímamót sem við þá stöndum frammi fyrir.

Þá skiptir meginmáli að vel sé á haldið og það er mín skoðun að eitthvert sterkasta baráttutæki íslensku þjóðarinnar einmitt fyrir sinni menningu og tungu þegar að þeim tímum kemur sé Ríkisútvarpið, sterkt Ríkisútvarp sem rekið er með það fyrir augum að efla tungu og menningu þjóðarinnar sem eitt af sínum aðalhlutverkum, auk sinna almennu upplýsinga- og fréttasjónarmiða. Þess vegna held ég að það sé einmitt ekki hvað síst með tilliti til þess tíma, sem við horfum fram til, mjög nauðsynlegt og þarft að menn taki starfsemi Ríkisútvarpsins til skoðunar, á hvern hátt megi búa Ríkisútvarpið undir þau átök og undir það starf sem fram undan er. Þess vegna held ég að umræðan um Ríkisútvarpið sé nauðsynleg, ég held að hún sé af hinu góða og ég held að þessi till. sé nokkuð góð.