10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5676 í B-deild Alþingistíðinda. (3810)

288. mál, efling Ríkisútvarpsins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. En ég vek athygli á því að það er svo tiltölulega rólegt í þingsölum um þessar mundir að það er hægt að fara að ræða menningarmál, m.a. að efla Ríkisútvarpið.

Ég er kannski ekki besti maðurinn til að taka undir þessa till. því að ég er einn af þessum vondu mönnum í fjvn. sem fella flestar till. sem horfa í þá átt að styrkja fjárhag Ríkisútvarpsins, að mér skilst af upphafi grg. Einnig hafa einhverjir af hv. flm., sem eru að mér sýnist svona nokkurn veginn tilheyrandi einni og sömu hjörð, látið að því liggja að stuðnings við þessa till. væri varla að vænta úr röðum sjálfstæðismanna. (Gripið fram í: Jú, jú.) Jæja, það gleður mig að það er nú ekki tekið undir þetta. Að sjálfsögðu vona ég að flestir ef ekki allir alþm. vilji efla Ríkisútvarpið. En það er eins og gerist og gengur að við gerð og samþykkt fjárlaga er í mörg horn að líta og þess vegna verður oft að fella tillögur sem eru góðar og gildar og gaman væri að styðja.

Þessi orð læt ég falla til þess að sýna fram á, segja og fullyrða að þessi till. nýtur áreiðanlega mikils stuðnings, m.a. í röðum sjálfstæðismanna. E.t.v. geta menn velt því fyrir sér hvort nauðsynlegast af öllu sé að skipa nefnd og hvernig hún eigi að starfa, en í meginatriðum er lýst eindregnum stuðningi við þá till. að efla Ríkisútvarpið og veita því þá viðurkenningu fyrir unnin störf sem það á skilið.