10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5680 í B-deild Alþingistíðinda. (3814)

288. mál, efling Ríkisútvarpsins

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær ágætu ræður sem hér hafa verið fluttar. Það hafa komið hér tíu þm. og í raun og veru tekið undir till., þm. úr öllum flokkum sem eiga fulltrúa á hv. Alþingi nema einum. Ég tel ástæðu til að þakka þann stuðning sem fram hefur komið í orðum þessara manna. Ég dreg það ekkert í efa að á bak við þau orð er vilji til athafna eða ég hef enga ástæðu til að ætla annað og vil helst trúa því að það sé þannig að menn vilji taka á þessu. Ég man auðvitað eftir því sem gerðist hér við afgreiðslu lánsfjárlaga þegar þm. stjórnarliðsins ákváðu að skerða tiltekna tekjustofna Ríkisútvarpsins. Það getur hins vegar vel verið að þessi umræða hér í dag sé til marks um það að þetta vilji menn aldrei aftur gera og því vil ég trúa og ég fagna því að menn skuli gefa jafneindregnar yfirlýsingar um stuðning við þessa till. og hér hefur komið fram.

Ég vil taka undir margt af því sem hér hefur komið fram, m.a. það sem hv. 1. þm. Suðurl. nefndi í sambandi við sjómennina. Það lýtur að þjónustu langbylgjunetsins. Ég vil einnig víkja að því sem hv. 5. þm. Vesturl. nefndi og segja að ég tel að Ríkisútvarpið þurfi að taka þátt í samkeppninni um afþreyingarefnið líka, til þess að tryggja sér m.a. aðgang að auglýsingamarkaðnum. Það sjá það allir að ef Ríkisútvarpið færi út úr samkeppninni um afþreyingarefni, þá þýðir það það að Ríkisútvarpið missir auglýsingamarkað og ég held að það væri frá þeim bæjardyrum séð óeðlilegt. Líka frá þeim bæjardyrum að það á að mínu mati ekki að láta einkaaðila í þessu þjóðfélagi um það eina að annast rekstur starfsemi sem hefur jafnmikil áhrif á ungt fólk og útvarpsstöðvar hafa.

Ég vil aðeins víkja að því sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði. Spurningin er kannski ekki eingöngu um góðan vilja, heldur er spurningin um það hvað menn láta hafa forgang. Er það þannig þegar kemur að atkvæðagreiðslu um málefni Ríkisútvarpsins við afgreiðslu fjárlaga að Ríkisútvarpið eigi nægilega marga vini á Alþingi til þess að þeir láti Ríkisútvarpið hafa forgang fram yfir eitthvað annað? Því auðvitað er það takmarkað sem við höfum til skiptanna þegar við erum að afgreiða fjárlög á hverjum tíma.

Það var stundum sagt hér áður að það væri erfitt að fá þm. til að samþykkja fjárframlög til fjallvega, vega yfir heiðar, vegna þess að við þá vegi búi engir kjósendur, þeir vegir eigi engin atkvæði. Aftur á móti þegar komið er niður í byggð, þá eru auðvitað bæirnir þar við vegina á stangli, enn þá a.m.k. Og menn eru tilbúnir til að taka á þeim hlutum en fjallvegirnir, svo mikilvægir sem þeir eru, eiga fáa vini. Mé; finnst stundum að líkja megi Ríkisútvarpinu við þessi fyrirbæri í okkar framkvæmdum. Þetta er samtengjandi þáttur í öllu okkar menningarlífi sem okkur verður öllum að þykja vænt um og við verðum öll að láta hafa forgang þegar við erum að taka ákvarðanir um fjárveitingar á vegum ríkisins.

Varðandi sjálfseignarstofnun þá tek ég það fram að ég spyr að þessu í þessari till. og ég segi fyrir mig, ég tel að Ríkisútvarpið eigi að vera sjálfseignarstofnun ríkisins. Það á að vera alfarið eign ríkisins. Það kemur ekkert annað til greina í mínum huga. Það sem ég er að hugleiða í þessu efni er það að Ríkisútvarpið hafi sjálfstæði, t.d. í samkeppni um starfsfólk og aðra starfsaðstöðu, sérstaklega á þeim tímum þegar Ríkisútvarpið á við vissa erfiðleika og aðlögunarerfiðleika að etja eins og nú er um að ræða. Mér hefur aldrei komið til hugar að það eigi að hleypa neinum öðrum aðilum til eignarhalds á Ríkisútvarpinu. Ég mundi alfarið verða á móti því. En Ríkisútvarpið á að vera sjálfstæð ríkisstofnun. Við notum þarna orðið sjálfseignarstofnun, kannski væri eitthvert annað orð heppilegra, um það geri ég engan ágreining. Ég vil að tvennt fari saman: annars vegar sjálfstæði og hins vegar ríkiseign á þessari mikilvægu stofnun.

Að öðru leyti finnst mér við eigum að velta því fyrir okkur að hve miklu leyti Ríkisútvarpið á að geta haft sjálfstæði um sína tekjustofna. Það þarf líka að velta því fyrir sér hvort afnotagjöldin eru í raun og veru enn þá heppilegasti grundvöllurinn í þessum efnum eins og þau eru. Ég held að það eigi að vera afnotagjöld en það megi velta því fyrir sér hvort ekki á að leggja afnotagjöld á fyrirtæki líka. Nú eru afnotagjöld bundin við einstaklinga, en fyrirtæki greiða ekki afnotagjöld til Ríkisútvarpsins nema í mjög takmörkuðum mæli. Mér fyndist koma til greina að þáttur í tekjuöflun ríkissjóðs væri nefskattur eða fyrirtækjaskattur sem legðist á hvert einasta fyrirtæki í landinu sem allir vita að eru hvort eð er með mörg útvörp og sjónvörp o.s.frv. Þetta vil ég leggja hér inn í þessa umræðu vegna þess að ég held að það gæti orðið til þess að styrkja Ríkisútvarpið.

Það er líka mikilvægt sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson benti á hér áðan að það var um það samstaða hér á sínum tíma að Sjónvarpið ætti að sitja eitt að auglýsingum, þ.e. ríkissjónvarpið. Síðan var því breytt hér í þinginu. Ég leyfi mér að hafa þá ágiskun uppi að ef þessi tillaga um auglýsingar í sjónvarpsstöðvum hefði ekki verið samþykkt á sínum tíma, þá væri Ríkisútvarpið 300–400 millj. kr. ríkara á ári en raun ber vitni í dag.

Ég vil svo að lokum segja það að mér leiðist þetta tal um það að þessar stöðvar, Stöð 2 og bylgjurnar og stjörnurnar, þetta sé eitthvað frjálsara en Ríkisútvarpið. Auðvitað er Ríkisútvarpið frjáls stofnun sem lýtur auðvitað lögmálum lýðræðis í þessu þjóðfélagi með ákveðnum hætti sem við höfum sett reglur um. Þess vegna er ákaflega vitlaust, að mínu mati fyrir minn smekk og mínar lífsskoðanir, að tala um þessar stöðvar sem eru í eigu fjármagnsins sem eitthvað frjálsari en hinar sem eiga að lúta lögmálum lýðræðis í þessu landi.