10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5688 í B-deild Alþingistíðinda. (3822)

296. mál, endurskoðun lánskjaravísitölu

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði það að umræðuefni að kannski væri lánskjaravísitalan ekki hvað síst hitamælir. Ég held að við þurfum hitamæli. Ég held að við þurfum að hafa mæli á verðbólguna í landinu. Ég held að það sé engin spurning, og við getum haft hann. En lánskjaravísitalan er í rauninni miklu, miklu meira. Hún er gífurlegur áhrifavaldur. Hv. þm. sagði líka: Það er auðvitað frjálst að semja um verðtryggingu launa, en niðurstaðan hefur orðið sú að ekki ætti að verðtryggja laun. Þá geta menn velt fyrir sér af hverju. Ef menn, og kannski hefur eitthvað af því sem ég var að reyna að segja ekki verið nægilega skýrt og það farið þess vegna að hluta fram hjá hv. þm., ætla sér að nota.lánskjaravísitöluna til þess að vera grunnur fyrir raunvexti, þ.e. að raunvextir séu það stig sem lagt er ofan á lánskjaravísitöluna, þurfa menn að gera sér grein fyrir því hver grunnurinn er. Er grunnurinn verðbólgugrunnur eða er hann mat á almennri eignaþróun í landinu? Og auðvitað hljóta menn að horfa á það: Er eðlilegt að verðbinda sparifé á annan hátt en aðrar eignir í þjóðfélaginu, að aðili sem kaupir fasteign geti hæglega lent í því að þó að hann borgi talsvert mikið niður af láninu skuldi hann verulega mikið fé eftir að hann hefur selt fasteignina eða að misgengi verði á þann hátt sem orðið hefur á launum og lánskjörum sem hv. þm. reyndar skýrði mjög vel á hvaða tímabili hafði skeð en varð samt sumum mjög erfitt mál?

Ég held þess vegna að það sé ekki endilega mjög langt á milli okkar í þessu. Ég held að við þurfum hitamælinn, en spurningin er kannski út frá hverju við mælum raunvexti. Hvaða hlutverk er það sem við ætlum þessari lánskjaravísitölu og hvernig hefur hún gegnt því hlutverki miðað við þróun annarra stærða í þjóðfélaginu? Ég er þeirrar skoðunar að það sé svo margt sem á henni hangir og henni tengist sem hefur svo gífurleg áhrif á líf hins almenna manns í þjóðfélaginu að það sé eðlilegt og nauðsynlegt á þessari stundu að við skoðum það hvernig hún hafi gegnt sínu hlutverki og hvort hún sé æskilegur mælikvarði. Sjálfur er ég alveg sannfærður um að hún er stórhættuleg á skammtímafjárskuldbindingum, alveg stórhættuleg. Ég held að það sé nægilega mikið happdrættisþjóðfélag sem við lifum í þó að við aukum ekki á það á þennan hátt. Þess vegna er ég sannfærður um að það væri okkur mikið til góðs að þessi mál væru tekin til endurskoðunar nú á þessari stundu.