10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5689 í B-deild Alþingistíðinda. (3824)

328. mál, þjónusta og ráðgjöf sérskóla

Flm. (Ingibjörg Daníelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 650. Meðflytjendur mínir eru þingkonur Kvennalistans, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að auka og bæta þjónustu og ráðgjöf sérskólanna við fatlaða nemendur í grunnskólum, kennara þeirra og foreldra um allt land.“

Það er misjafnt hvaða mælikvarði er notaður á það hvort þjóð er menningarþjóð eða ekki. Stundum er miðað við hvort notað er mikið eða lítið af sápu eða hvort þjóðin á marga eða fáa bíla, jafnvel hvort fólk vinnur langan eða skamman vinnudag.

Ein leiðin til að meta þetta atriði er að líta á hvernig tekið er á málefnum hinna veikbyggðari og þeirra sem skapa ekki veraldleg verðmæti, eins og t.d. aldraðir og fatlaðir.

Ef við notuðum síðustu mælistikuna á okkur Íslendinga fengjum við meðalmennskustimpil á menningarstöðu okkar. Við getum sagt að ýmislegt gott er gert varðandi málefni þeirra sem minna mega sín en það er líka heilmargt sem gæti verið í betra horfi.

Það sem mál mitt snýst hér um er skólaganga fatlaðra barna, en sum þeirra þurfa að sækja skóla sem þeim hentar um mjög langan veg. Flest rök hníga að því að miklar breytingar, sem verða skyndilega á högum barna, séu þeim óhollar. Okkur Íslendingum ber að sjá til þess að börn okkar fái að alast upp í sínu eðlilega umhverfi. Þess vegna verðum við að gera skólum landsins kleift að sinna þeim nemendum sem ekki falla að öllu leyti inn í það munstur sem við höfum búið okkur til. Vissulega höfum við gert stórátak í þessum efnum en þó er enn langt í land. Í grunnskólalögunum frá 1974, 42. gr., segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Við setningu námsskrár og skipulagningu námsefnis fyrir grunnskóla skal þess sérstaklega gætt að öllum nemendum séu gefin sem jöfnust tækifæri til náms.“

Í lögum um málefni fatlaðra frá 1983, 1. gr., segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Markmið þessara laga er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna.“

Þarna er fallegur lagabókstafur en framkvæmdinni er ábótavant. Í flestum sérskólum eru nú börn sem gætu verið í almennum skólum ef þjónusta við þá væri aukin.

Nú er gert ráð fyrir að skólarnir geti sótt sérfræðiþjónustu á fræðsluskrifstofurnar. Vissulega er það nauðsynlegt og í mörgum smærri tilfellum dugar það. Ef um alvarlegri tilvik er að ræða er brýnt fyrir kennara að hitta aðra kennara og fagfólk sem er að vinna með svipaða einstaklinga, þannig að þeir einangrist ekki faglega, heldur fái að kynnast kennslugögnum og starfsaðferðum sem reynast best að mati þeirra sem mestar forsendur hafa til að meta hvað gagnlegast er.

Þess vegna ætti einn þátturinn í aukinni og hættri þjónustu við fatlaða einstaklinga og aðstandendur þeirra að vera sá að koma á fót starfsemi við sérskólana í landinu þar sem boðið væri upp á námskeið, þ.e. tímabundna dvöl, fyrir viðkomandi aðila. Einnig þarf að bjóða þar upp á faglega ráðgjöf fyrir þá kennara sem annast fötluð börn úti í grunnskólunum. Nauðsynlegt er að sú ráðgjöf fari fram að hluta til úti í hinum almenna skóla. Að sjálfsögðu þurfa sérkennslufulltrúi og aðrir sérfræðingar fræðsluumdæmisins að vera með í ráðum.

Í sumum af sérskólum landsins eru eða hafa verið starfandi ráðgjafar sem sinna fólki utan skólans en það hefur verið ætlaður of lítill tími í það til þess að sinna öllu landinu. Einnig þurfa þau fræðsluumdæmi sem fá ráðgjafann á vettvang að greiða ferðir hans, þannig að dreifbýlis- og þéttbýlisbúar sitja ekki við sama borð hvað varðar þessa þjónustu.

Starfsemi í svipuðum dúr og ég hef lýst hér að framan er nú við Heyrnleysingjaskólann. Til að varpa skýrara ljósi á mál mitt vitna ég í Fréttabréf ráðgjafarþjónustu Heyrnleysingjaskólans frá því í október 1987 þar sem fjallað er um námskeið fyrir heyrnarskert börn í grunnskólum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Á þessu skólaári . hyggjumst við brydda upp á nokkurri nýbreytni til að bæta þjónustuna við þessa nemendur. Við ætlum að bjóða upp á námskeið hér við Heyrnleysingjaskólann þar sem börn með þessa fötlun koma saman, 3–4 í senn, og dvelja hjá okkur í tvær vikur. Við munum leggja áherslu á að kanna hvar þau standa námslega, einkum þó hvernig mál þeirra, málskilningur og hæfni til að tjá sig er miðað við aldur og stig fötlunar. Þeim býðst kennsla í tónstofu skólans, í þjálfun á heyrn, heyrnarminni og hljóðfalli, undirstöðuatriði fyrir betra og réttara tal. Tæknimaður skólans og Heyrnar- og talmeinastöðvar munu verða okkur innan handar við að stilla heyrnartæki barnanna og annan hjálparbúnað.

Þetta verða helstu áhersluatriði námskeiðanna. Þá er enn ótalinn einn mikilvægasti þátturinn sem næst við fyrirkomulag sem þetta, sá félagslegi. Börn með þessa fötlun fá tækifæri til að kynnast, ræða sín mál og benda okkur á leiðir til að mæta sem best þörfum þeirra. Það skapast eðlileg tengsl milli þeirra innbyrðis og milli þeirra og Heyrnleysingjaskólans. Á undanförnum árum höfum við tekið á móti nokkrum börnum, einu og einu í senn, og þær heimsóknir hafa reynst mjög jákvæðar, verið mikill stuðningur við barnið og kennara þess úti í almenna skólanum.

Aðeins er um þrjú námskeið að ræða á þessu skólaári en við gerum okkur vonir um að geta aukið þessa þjónustu á næstu árum þannig að í framtíðinni tengist öll heyrnardauf börn ráðgjafarþjónustunni reglubundið á skyldunámsstiginu. Hversu oft börnin koma getur verið einstaklingsbundið og reynslan mun hafa áhrif á mótun og framvindu þessara mála.

Börn utan af landi eiga þess kost að búa í heimavist meðan á dvöl stendur. Foreldri eða kennari geta fylgt barninu að hluta til eða alveg ef þau deila herbergi.“

Vitanlega hentar þetta fyrirkomulag ekki óbreytt fyrir annars konar fötlun, en það er hægt að nota hugmyndina og laga hana síðan að þeim hópi sem þjóna á hverju sinni. Leggja ber ríka áherslu á að „kerfið“ sé sveigjanlegt og komi til móts við einstaklinginn.

Heyrnleysingjaskólinn fær aðeins 2/3 hluta úr kennarastöðu til að sinna þessum þætti skólastarfsins. Ef tíminn sem ætlaður er í þennan starfa er skorinn við nögl er öruggt að hann nýtist ekki nógu vel. Óheyrilega margir bíða eftir að komast á námskeið, ferðir ráðgjafanna á vettvang verða mjög strjálar og ráðin sem þeir gefa því að einhverju leyti úr takt við umhverfi og aðstæður þó svo að ráðgjafar fræðsluskrifstofunnar séu í fullri samvinnu við þá sem koma frá sérskólunum. Einnig er öruggt að illa gengur að fá fólk í starfið því það er eins og að stoppa í sokk þar sem ilin er úr ef menn fá aðeins að vita af verkefnunum en hafa aldrei tíma til að koma þeim á einhvern rekspöl.

Starfsemi sem þessi kostar endurskipulagningu í sérskólunum þar sem meiri hluti starfsfólks þarf að vera tilbúinn til þess að sinna kennurum úr öðrum skólum sem eru að vinna með börn með svipaða fötlun.

Nú má eflaust leiða rök að því að þjónusta sem þessi sé dýr, en það má miklu frekar leiða rök að hinu gagnstæða. Það er dýrt að byggja og reka sérskóla og það er vissulega líka dýrt að annast fólk sem ekki getur séð um sig sjálft. Það eru meiri líkur á að fatlaður einstaklingur, sem elst upp við venjulegar aðstæður, læri á alla þá þræði sem mynda vef hins daglega lífs og verði því betur sjálfbjarga en sá sem slitinn er úr tengslum við fólk sitt og umhverfi um lengri eða skemmri tíma.

Eins og við vitum öll býr fólk nú við mjög mikið misrétti hvað varðar skólagöngu fatlaðra barna eftir því hvar það er búsett á landinu. Þeir sem búa í höfuðborginni og nágrenni hennar geta farið í sérskóla en búið heima ef aðstæður heima fyrir leyfa. Einnig geta börn á Akureyri og þar um kring sótt Hvammshlíðarskóla en hann er þjálfunarskóli fyrir þroskahefta.

Í rauninni er um fjóra kosti að ræða fyrir fötluð börn af landsbyggðinni. Þau geta flutt „suður“ ásamt fjölskyldu sinni. Í flestum tilfellum veldur það fjölskyldunni bæði efnahagslegum og félagslegum erfiðleikum.

Annar kosturinn er að senda börnin á fósturheimili eða vista þau á annan hátt nálægt þeim skóla sem hentar. Það ætti að vera óþarft að minna á það sálarstríð sem foreldrar og börn eiga í þegar slíkur aðskilnaður á sér stað. Það sama gildir um fötluð börn og heilbrigð að stórvægilegar breytingar, sem verða á félagslegum högum þeirra, eru þeim óhollar. Í reglugerð frá 1977 um sérkennslu segir í 22. gr., með leyfi forseta:

„Enn fremur greiðir ríkissjóður fargjöld nemenda heiman og heim þrisvar á ári, svo og fargjöld vegna einnar ferðar beggja foreldra árlega, báðar leiðir, samkvæmt reikningum og úrskurði fræðslustjóra sé nemandi vistaður utan síns skólahverfis af ástæðum sem þessi reglugerð tekur til. Heimilt er með samþykki menntamálaráðuneytisins að greiða fargjöld foreldra oftar en að framan getur sé það talið af sérfræðingum nauðsynlegt vegna velferðar barnsins.“

Með öðrum orðum er verið að segja að foreldrar og börn eigi að hittast fjórum sinnum á ári.

Þriðji kosturinn er sá að hafa barnið heima og foreldrarnir reyni að sinna því eins og mögulegt er. Síðasti kosturinn er að barnið fái kennslu í sínum heimaskóla. Það hefur færst í vöxt núna síðustu árin. T.d. eru nú 12 börn í Öskjuhlíðarskóla sem ekki eru úr Reykjavík eða af Reykjanesi. Veturinn 1982–1983 voru þar 25 börn af sama svæði. Þessi breyting er m.a. vegna þess að fleiri fjölskyldur flytja nú á höfuðborgarsvæðið ef börn þeirra þurfa að sækja skóla þangað.

Önnur ástæða fyrir þessum minnkandi fjölda barna utan af landi í Öskjuhlíðarskóla er sú að þeim er frekar sinnt í grunnskólum sinnar heimabyggðar. Hið síðarnefnda er vissulega gleðileg þróun og sýnir þá viðhorfsbreytingu sem orðið hefur á síðustu árum. Vegna þessara breytinga á viðhorfum verður að auka og bæta þjónustu við hina almennu grunnskóla þannig að í raun sé mögulegt að sinna þar fötluðum einstaklingum. Núna er sú þjónusta sem þessi börn fá mikið til komin undir dugnaði og ýtni foreldra þeirra og kennara ásamt velvilja þess fólks sem vinnur við sérskólana.

Þó ég hafi hér lagt áherslu á mál landsbyggðarinnar í þessu sambandi tek ég fram að nauðsynlegt er að skoða þessi mál öll í einni heild, hvort sem um er að ræða börn á grunnskólaaldri eða hálffullorðið fólk, einstakling í litlum sveitaskóla eða hópinn í sérskólanum.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að fara fram á að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og til hv. félmn.