02.11.1987
Neðri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

43. mál, leyfi til slátrunar

Frsm. minni hl. landbn. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 54 og 55 varð landbn. eigi sammála um afgreiðslu þessa máls. Nefndin ræddi frv. allítarlega á tveimur fundum og kallaði til ýmsa aðila svo sem fram kemur í nál. bæði meiri hl. og minni hl.

Tilefni þessa málatilbúnaðar á hv. Alþingi er það að þegar frv. var flutt var alger óvissa um á hvern hátt yrði komið fram slátrun á sláturfé þeirra Arnfirðinga og leyfi hafði ekki fengist til slátrunar í húsi Sláturfélags Arnfirðinga. Skoðun hafði verið framkvæmd á húsinu ítrekað, svo sem lög gera ráð fyrir, en þrátt fyrir að Sláturfélag Arnfirðinga og bændur við Arnarfjörð hefðu lagt í verulegan kostnað til að bæta úr ýmsum þeim ágöllum sem á húsinu voru taldir vera var leyfi eigi veitt.

Í umræðum um þessi mál á hv. Alþingi við 1. umr. og utan dagskrár lýsti hæstv. landbrh. því yfir skýrt og skorinort að sláturleyfi yrði veitt ef dýralæknir fengist til að skoða kjötið hjá Sláturhúsi Arnfirðinga á Bíldudal. Það lágu því margar orsakir til þess að Sláturfélag Arnfirðinga gat í rauninni vænst þess að leyfi yrði veitt til slátrunar á þessu hausti, auk þess sem það var í algerri óvissu hvort fólk fengist til þess að annast slátrun á sláturfé Arnfirðinga ef slátrað yrði á Patreksfirði, sem þó að lokum tókst að ég ætla með verulegum eftirgangsmunum.

Við í minni hl. landbn., sem skrifum undir þetta nál., teljum að meðferð framkvæmdarvaldsins á þessu máli hafi verið óviðunandi þannig að það sé ekki hægt að bjóða fólki upp á slík vinnubrögð. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það í þessu tilviki að sláturhúsið er tekið út svo sem lög gera ráð fyrir, þar er fundið að ýmsum hlutum sem talið er að sé ábótavant, þeir fáu bændur sem að húsinu standa leggja í verulegan kostnað við að lagfæra margt af því sem talið er ábótavant og síðan er gefið í skyn að leyfi muni verða veitt ef dýralæknir fáist til að skoða kjötið. Þegar svo til kastanna kemur er leyfi alls ekki veitt.

Það lítur út fyrir að það hafi verið fyrirsláttur af hálfu hæstv. landbrh. að dýralæknir fengist ekki til þessara starfa. Fulltrúi Dýralæknafélags Íslands, sem kom á fund nefndarinnar, lýsti því yfir að Dýralæknafélagið mundi senda mann vestur á Bíldudal ef leyfi yrði veitt. Hann lýsti því einnig yfir að Dýralæknafélagið væri óánægt með að ráðinn hafi verið maður, kunnur hestamaður og dægurlagasöngvari, til kjötskoðunar á Patreksfirði. Dýralæknafélagið lýsti því yfir að það mundi senda mann til kjötskoðunar á Patreksfirði þegar ráðningartími söngvarans rynni út. Sá fyrirvari sem hæstv. landbrh. kynnti í þessu efni, sem kæmi í veg fyrir að hann veitti sitt leyfi, var því í rauninni markleysa.

Þá er rétt að geta þess í sambandi við þær umræður sem orðið hafa um vatn á Bíldudal úr vatnsveitu þeirra Bílddælinga að annar af tveimur fulltrúum Neytendasamtakanna lýsti því yfir að vatnið í þessari vatnsveitu væri ekki verra en víða annars staðar. Það væri hvorki verra né betra en í allt að 40–50% af vatnsveitum landsins. Þetta er maður sem hefur þekkingu til að bera á þessu sviði vegna þess að fyrir fáum árum var hann yfirmaður Framleiðslueftirlits sjávarafurða og var því vel kunnugur því vatni sem notað var við matvælavinnslu á Íslandi á þeim tíma.

Ég tel að margt hafi verið sagt í þessum efnum og um þetta mál sem betur hefði verið ósagt, bæði af hálfu fagmanna um þetta efni og jafnvel af hálfu okkar þm. í þessum þingsal. En meginniðurstaða okkar í minni hl. landbn. var þessi: Meðferð þessa máls og meðferðin á því fólki sem stendur að þessu sláturhúsi er með þeim hætti að hún er að okkar dómi óviðunandi. Þess vegna leggjum við til að frv. sé samþykkt svo sem fram kemur í nál. á þskj. 55. Undir það nál. skrifa auk mín Eggert Haukdal og Ingi Björn Albertsson.