10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5711 í B-deild Alþingistíðinda. (3839)

340. mál, varnargarðar sunnan Markarfljótsbrúarinnar

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um áætlun um varnargarða gegn landbroti sunnan nýju Markarfljótsbrúarinnar. Meðflm. eru hv. þm. Egill Jónsson, Halldór Blöndal, Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur H. Garðarsson og Eyjólfur Konráð Jónsson.

Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina að fela Vegagerðinni að gera áætlun um byggingu varnargarða gegn landbroti sunnan nýju Markarfljótsbrúarinnar.

Áætlunin liggi fyrir áður en endanlega verður lokið við hönnun brúarinnar, brúarstæði og fjármögnun og áður en framkvæmdir hefjast árið 1990. Áætlunin miði að stöðvun landbrots neðan Markarfljótsbrúar og flóðahættu vestur og austur með strandlengjunni.“

Það er staður á landinu sem heitir Hrafntinnusker, 100 km frá sjó. Þar á upptök sín fljót sem einfaldlega ber nafnið Fljótið. Þar er lygnt og rólegt vatn, sem rennur til sjávar, við þetta fyrirferðarmikla og fallega náttúrufyrirbæri og háu bungu sem heitir Hrafntinnusker, sem er í 1128 metra hæð yfir sjó og telst til Torfajökulssvæðis. Frá rótum þess rennur Fljótið sem svo er nefnt þarna, meinleysislegt og lygnt, en síðan bætast í það heil ósköp af ám eftir að ferð þess er hafin hina löngu leið til sjávar.

Fyrst eru það kvíslarnar í Reykjadölum, svo koma Blautakvísl, Laufalækur, Hagafellskvísl, Ljósá, Hvítmaga, Torfakvísl, Bratthálskvísl, Bláfjallakvísl, Kaldaklofskvísl, Innri-Emstruá, Þverá, Fremri-Emstruá, Ljósá, Þröngá, Gilsá, Krossá, Steinholtsá og Jökulsá. Þá heitir fljótið einu nafni Markarfljót og er löngu hætt að vera meinleysislegt þegar svo er komið sögu. Það hefur grafið sér djúpan farveg. Grjótmylsna sem það ber með sér sagar og sagar aldirnar út í gegn og bakkarnir eru orðnir allt upp í 200 metra háir þar sem það hefur ekki getað fært sig til hliðar. Markarfljót malar niður bakkana sandborna og hleður undir sig, hækkar sig sjálft uns það lónar upp á þá og finnur sér nýjar leiðir. Þess á milli tekur það til við að bera með sér fram það sem rutt hefur verið niður og þá myndast mjög háir bakkar. Þá hefur kannski orðið til rás einhvers staðar úti á aurnum þar sem það unir sér í einhvern tíma. Þannig hefur það fært sig til og frá svo skiptir km síðan farið var að hafa áhrif á rennsli þess síðustu 40–50 árin. Lengst af urðu menn að lúta valdi Markarfljóts, en á síðari áratugum með aukinni tækni og framþróun hefur Markarfljót að hluta orðið að lúta valdi mannlegrar tækni.

Það hafa orðið stórfelldar landskemmdir á undanförnum árum á ræktuðu landi sunnan Markarfljótsbrúar, en á nær hálfrar aldar tímabili hefur landbrot við neðanvert Markarfljót átt sér stað á þúsundum hektara, en landbrotið er mest á 8 km löngu ræktuðu landi og þar hefur fljótið rutt sér allt að tveggja kílómetra leið til vesturs inn í hið ræktaða land. Verulegt landbrot hefur einnig orðið austan fljótsins. Eins og landið er nú óvarið vestan fljótsins er mikil flóðahætta vestur með strandlengjunni allt vestur á Krosssand og þar með er byggð í Austur-Landeyjum og vatnsveituhús og Vatnsveita Vestmannaeyja á ströndinni í verulegri hættu. Sveitarstjórnir á svæðinu hafa hvatt til þess að ráðist verði í gerð varnargarða vegna landbrotsins og fyrrgreindrar hættu.

Það segir sig sjálft og hefur reyndar sýnt sig fyrir skömmu hve mikið er í húfi að Vatnsveita Vestmannaeyja hafi styrka stöðu á þeirri leið sem hún er á á fastalandinu því það er dýrt spaug stöðvist hin umfangsmikla vinnsla sem á sér stað í stærstu verstöð landsins, Vestmannaeyjum.

Vegagerð ríkisins hefur undirstrikað að smíði nýrrar brúar yfir Markarfljót og bygging nýs vegarstæðis að brúnni sé með arðsömustu framkvæmdum í vegagerð á Suðurlandi. Áætlað er að framkvæmdir við brúna hefjist árið 1990, en allt mælir með því að þeim framkvæmdum verði flýtt svo sem auðið er. Gamla brúin er farin að gefa sig og um hana er eina leiðin yfir Markarfljót. Framkvæmdir við varnargarða á svæðinu ofan og neðan brúar eru tengdar brúarframkvæmdinni sjálfri og kalla á framkvæmdir vegna flóðahættu, leiðin með suðurströndinni styttist allnokkuð með nýju brúnni, um 6 km, og ekki er unnt að ljúka lagningu varanlegs slitlags frá Landeyjum og undir Eyjafjöll fyrr en með smíði brúarinnar.

Fordæmi eru fyrir því í framkvæmdum Vegagerðar ríkisins að í stærri verkefnum á sviði brúarsmíði annist Vegagerðin einnig gerð nauðsynlegra varnargarða. Vegagerðin hefur þegar undirbúið gerð varnargarða ofan Markarfljótsbrúarinnar og unnið að því að styrkja þá miklu garða sem þar eru því nauðsyn er á því. Þess vegna er eðlilegt að Vegagerðin sjái jafnframt um áætlanagerð neðan brúar þótt hluti áætlunar hljóti að verða unninn í samvinnu við Landgræðslu ríkisins sem lög gera ráð fyrir að sjái um varnargarða og fyrirhleðslur. Mikilvægt er að bygging varnargarða neðan Markarfljótsbrúar verði ákveðin samhliða brúarsmíðinni eða í nánum tengslum við hana til þess að nýta vélakost og flýta brýnu verki.

Markarfljót er tíunda vatnsmesta fljót landsins með um 60 rúmmetra rennsli á sekúndu. Á einum sólarhring skilar fljótið um 5 millj. tonna af vatni til sjávar og á einum sólarhring ber fljótið fram um 6000 tonn af sandi eða um 250 tonn á klukkustund að sögn dr. Hreins Haraldssonar sem hefur skrifað doktorsritgerð um Markarfljót. Þarna er á ferð mikið magn af vatni og sandi og því rík ástæða til þess að bregða við með viðráðanlegum aðgerðum áður en yfirvofandi hætta verður að vandamáli.

Það er ástæða til að hvetja til markvissra taka á þessu máli, að láta gera þá áætlun sem hér er lagt til strax. Ákveðin gögn liggja fyrir og það er ekki stórmál að láta gera þessa áætlun. En það er eðlilegt að hún sé gerð áður en lagt er í brúarframkvæmdina yfir Markarfljót sem er á næstu grösum, yfir þennan mikilvæga hlekk í hringveginum og eðlilegt að Vegagerðin stýri því eins og hún hefur þegar gert ákveðnar vinnutillögur um breytingu garða fyrir ofan nýju brúna með tilliti til brúarstæðis og rennslis um Markarfljót.

Að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til allshn.