02.11.1987
Neðri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

43. mál, leyfi til slátrunar

Frsm. meiri hl. landbn. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Bjarnason lét að því liggja í ræðu sinni að þetta frv. hefði ekki náð fram að ganga vegna þess að landbn. deildarinnar hefði verið svifasein í störfum. Þetta er fjarstæða. Þetta er gjörsamlega órökstudd fullyrðing sem ég vísa algjörlega á bug. Þetta mál var til 1. umr. í hv. deild sl. miðvikudag. Þeirri umræðu lauk þá um kvöldið. Morguninn eftir klukkan níu kom landbn. Nd. saman til fundar. Hún hélt fund þá í þrjá klukkutíma og aðra tæplega þrjá klukkutíma að kvöldi sama dags. Föstudaginn eftir voru ekki deildarfundir í þingi. Meirihlutaálitinu var skilað hingað inn á Alþingi á laugardegi og það var tilbúið prentað í þinginu á mánudagsmorgni. Þannig verður ekki hægt að segja að landbn. deildarinnar hafi verið svifasein. Ég vísa þessu á bug og segi þetta vegna þess að ég vil að þetta komi í þingtíðindum. Þetta er rangt, hv. þm.

Mér finnst dálítið undarlegt í sambandi við þessa umræðu að eftir það nál. sem meiri hl. hefur látið frá sér fara skuli menn ekki ræða þann allsherjarvanda sem blasir við vegna þeirra upplýsinga sem koma fram í nál. meiri hl. þar sem er sagt berum orðum að ástandið í sláturhúsamálum hér á landi sé fyrir neðan allar hellur. Það er hárrétt, sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði hér áðan, að við heyrðum það á 577 Nd. 2. nóv. 1987: fundum nefndarinnar hjá umsagnaraðilum að 40% a.m.k. af vatnsveitum landsins væru með vatn sem væri ekki ögn skárra en það vatn sem sláturhúsið á Bíldudal getur haft og hefur til afnota, en með leyfi forseta langar mig að vitna í rannsóknarskýrslu Hollustuverndar ríkisins vegna vatnssýnis sem tekið var á Bíldudal: Vatnssýnið er móttekið 7. okt. sl. og í rannsókn kemur fram að kólígerlafjöldi í 100 ml vatns er 54 og saurkólígerlafjöldi í jafnmiklu vatnsmagni eða 100 ml er 54.

Þegar svo við bætist að fróður maður yfirlýsir á fundi nefndarinnar að 40% af vatnsveitum landsins hafi vatn sem sé af svipuðum toga þykja mér hlutir vera farnir að gerast alvarlegir. Og umræða varð um ástand sláturhúsa hér á landi almennt, um þrýsting stjórnmálamanna, um að sláturhús sem væru raunverulega óhæf til slátrunar fengju leyfi. Ég hygg að sök stjórnmálamanna í þessu kraðaki öllu sé talsverð. Ég minnist þess að yfirdýralæknir sagði aðspurður á fundi nefndarinnar að hann hefði verið beygður til að veita sláturhúsum leyfi. Þetta voru hans óbreyttu orð á fundi nefndarinnar. Hann hefði orðið að láta undan síga fyrir þrýstingi.

Herra forseti. Það er þetta mál sem við eigum að ræða hér, sóðaskapinn í matvælaframleiðslu á Íslandi. Við segjum í nál. meiri hl. að sláturhúsið á Bíldudal hafi verið blóraböggull og að stjórnvöld hafi verið svifasein. Að hluta til tökum við undir þá gagnrýni sem hefur komið fram. Og mér hefði þótt ástæða fyrir hv. þm. Matthías Bjarnason að nefna það. Það voru hins vegar önnur atriði þessa máls sem við vorum á móti, m.a. að málið væri óþinglegt, að þingið gæti ekki tekið fram fyrir hendurnar á framkvæmdarvaldinu í leyfisveitingum til einstakra sláturhúsa.

Herra forseti. Ég hygg að þetta mál þurfi að ræða í miklu víðara samhengi. Hér er á ferðinni mjög alvarlegt mál í heilbrigðiseftirliti matvælaframleiðslu á Íslandi.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.