14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5723 í B-deild Alþingistíðinda. (3855)

331. mál, störf og starfshættir umboðsmanns Alþingis

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir síðustu orð flm. þeirrar þáltill., sem er til umræðu á þskj. 658, um að áríðandi sé að það sé samstaða um embætti umboðsmanns Alþingis og að umboðsmaður Alþingis verði sá aðili að þeir sem telja sig vera misrétti beitta í þjóðfélaginu og þá sérstaklega af opinberum aðilum, af kerfinu sjálfu, hafi greiðan aðgang að einhverjum ákveðnum aðila eins og t.d. hér er lagt til, umboðsmanni Alþingis. En ég verð því miður að gera þá athugasemd við það frv. sem hér er lagt fram og jafnvel þau lög sem samþykkt hafa verið og verður ekki breytt við þessar umræður, enda eru þau ekki á dagskrá, að hér er verið að stofna til miklu meira embættis en að gæta hagsmuna einstaklinganna sem telja sig verða fyrir einhverju misrétti í þjóðfélaginu. Hér er verið að stofna til embættis sem er valdastofnun og að mínu mati, eftir því sem ég les þessa till., minna til þess að gegna því hlutverki sem á að leiða málið í gegnum Alþingi, þ.e. hafa hagsmuni einstaklingsins að leiðarljósi. Þetta er valdastofnun sem er orðin eins konar eftirlitsaðili með stjórnkerfinu í heild. Mér kemur í hug að Sjálfstfl. hefur lifað á því ár eftir ár að kalla: Kerfið burt! og Báknið burt! og guð má vita hvað ekki. Það er eins og búið sé að breyta því í: Báknið kjurrt og meira bákn!

Það er hægt að koma á umboðsmanni Alþingis sem á að gegna þjónustuhlutverki við einstaklinga í vanda. Það er hægt að koma honum fyrir í kerfinu án þess að skapa utan um hann bákn. Nú er Alþingi að verða eins konar valdastofnun umfram það sem hefur verið. Það hefur verið löggjafarstofnun eingöngu. Ríkisendurskoðun er komin undir Alþingi. Hluti af því framkvæmdarvaldi sem áður var er kominn undir Alþingi beint og þar er Alþingi búið að fá eftirlitsaðila með starfsemi framkvæmdarvaldsins. Það er ekki nokkur vandi að hafa þar einn starfsmann í viðbót sem eins konar umferðarlögregluþjón í kerfinu er beinir þeim einstaklingum sem eru í vanda inn á réttar brautar til þess að þeir geti náð rétti sínum.

Ég vil aðeins benda á að ég gerði þessar athugasemdir tímanlega við hæstv. forseta Sþ., því að hann talaði við mig sem forseti þingsins, á sínum tíma þegar hann ræddi við mig sem formann Borgarafl. um þessi mál og ekkert af því sem ég hafði þar að segja eða athugasemdir sem ég hafði fram að færa var tekið til greina. Það var bara spurt: Viljið þið vera með eða viljið þið ekki vera með? Ég sagðist ekki vilja vera með vegna þess að hér er allt annað mál á framkvæmdastigi og í undirbúningi en upphaflega var hugsað.