14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5727 í B-deild Alþingistíðinda. (3858)

331. mál, störf og starfshættir umboðsmanns Alþingis

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég ítreka einu sinni enn að það er enginn ágreiningur á milli mín og flm. um að umboðsmaður Alþingis sé einmitt fyrst og fremst til að koma þeim minni máttar til varnar og aðstoða þá sem eru í vanda við kerfið og þurfa að ná sínum rétti. Við skulum ekki vera að nota það til að koma einhverju öðru í gegnum Alþingi. Við skulum ekki blekkja hver annan.

Hv. 7. þm. Reykv. talaði um eftirlitshlutverk þingnefnda og skyldur þeirra og þá sérstaklega gagnvart stóru einokunarfyrirtækjunum. Það mál er ekki á dagskrá. Það er allt annað og stærra mál að breyta hlutverki og tilgangi þingnefnda og verksviði þingnefnda. Ég held að það sé farið að rugla ansi mikið málið á dagskrá, sem er umboðsmaður Alþingis og ekkert annað.

Hv. 4. þm. Vestf., ég er svo óvanur að kalla hann hv. þm. að ég bið um leyfi forseta til að halda áfram að kalla hann hæstv. forseta sameinaðs Alþingis, og þetta er mál sameinaðs Alþingis, segir að það sé misskilningur að hér sé verið að setja á stofn bákn. En af hverju er hæstv. forseti vor að tala svona? Ég er sammála 1. gr., en 2. gr. hefst með þessum orðum: „Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga“ o.s.frv. Haldið þið að einhver einn maður eða jafnvel nokkrir menn hafi eftirlit með bæði stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á nokkurn hátt ef það á að vera eitthvert gagn að þessu? Ætlið þið að segja mér að það sé hægt að gera það með einum manni með símastúlku? Það segir sig sjálft að hér er verið að setja á stofn það bákn sem ég gat um.

Það er alveg rétt, sem hæstv. forseti segir, að það er ekkert tekið fram um hve margt starfsfólk umboðsmaður Alþingis skal hafa í þjónustu sinni. Hann er eiginlega einráður um það þó svo hann verði að hafa samráð við Alþingi, forseta Alþingis, og þurfi að leita samþykkis forseta Alþingis um fjöldann og eins um launakjör starfsfólks. En launakjör umboðsmanns eru ákveðin topplaun í þjóðfélaginu sem eru sambærileg að öllu leyti við hæstaréttardómara. Það er því verið að staðsetja umboðsmann sem yfirvald á topplaunum að sjálfsögðu, sem er ekkert athugavert við, og við skulum ekkert vera að blekkja okkur með hvað er hér á ferðinni.

Þó við séum hér að ræða reglur um starfsemi umboðsmanns eða embættis umboðsmanns Alþingis eru þær reglur aldrei lögunum yfirsterkari. Lögin hljóta alltaf að vera það sem blífur, það sem gildir.

Umboðsmaður getur farið fram á alls konar óskir við dómara og við kerfið í heild og kerfinu ber skylda til þess, hvar sem menn eru staðsettir í störfum fyrir það opinbera, að opna sig og gefa allar upplýsingar til þessa manns. Þetta er algert yfirvald. Slík vinna verður ekki unnin af einum eða tveimur mönnum. Þetta verður það bákn sem ég er búinn að vara við.

Tilgangurinn í upphafi, og bæði ég og fleiri menn finna að það þarf einhvern varnaraðila fyrir lítilmagnann í þjóðfélaginu, sem telur sig vera misrétti beittan, var aldrei að gera úr þessu bákn. En tillagan hér er einmitt um það.

Hann er m.a.s. eftirlitsmaður með störfum Alþingis á vissan hátt. Í 11. gr. segir, með leyfi forseta: „Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir eru á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn.“

Þetta er ekkert smáhlutverk. Við 63 þm., rúmlega 60 þm., erum eftirlitsmenn með því sem fer í gegnum Alþingi, höfum eftirlit með því að meinbugir séu ekki á hlutunum. Og hér er starfsfólk sem vinnur að því líka að koma í veg fyrir meinbugi á lögum. Það virðist ekki vera nóg ef traustið á okkur öllum, sem vinnum að þessu kjörnir eða ókjörnir, er ekki meira en svo að hér skal eftirlitsmaður Alþingis vera til viðbótar með sitt starfslið. Ég reikna með að hann verði með starfslið.

Í 14. gr. segir — ég er með lögin en ekki væntanlegar reglur - með leyfi forseta:

„Umboðsmaður ræður sjálfur starfsfólk síns embættis. Um fjölda þess og launakjör skal farið eftir reglum sem Alþingi setur skv. 15. gr."

En reglurnar geta tæplega orðið lögunum yfirsterkari.

Hæstv. forseti. Ég skal stytta mál mitt og ekki fara út í fleiri punkta þó að ég hafi af nógu að taka. Ég mun bíða með það þangað til málið kemur aftur úr nefnd. En ég vil ekki gera að umræðuefni það sem okkur fór á milli um fyrirkomulagið á valinu á umboðsmanninum sjálfum þó hv. 4. þm. Vestf. hafi minnst á það og gefið mér tilefni til þess. Ég hafði líka við það að athuga. En það er orðinn hlutur og ég geri enga athugasemd við kjör úr því sem komið er. Mér þótti nóg að gera þá athugasemd sem ég hafði við þá vinnu að gera í prívatsamtali við forsetann og mun ekki taka það upp. En samráð við þingflokk Borgarafl. var haft að sjálfsögðu í gegnum formann flokksins því forseti óskaði eftir samtali við formann flokksins um þessi mál og þar gerði ég ákveðnar athugasemdir sem ekki voru teknar til greina.