14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5729 í B-deild Alþingistíðinda. (3859)

331. mál, störf og starfshættir umboðsmanns Alþingis

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég undirstrika nokkur atriði, sem komu reyndar fram í máli

hæstv. forseta Sþ., að í þessum undirbúningi öllum saman var þess gætt að þessi reglugerð væri í anda

laganna um umboðsmann Alþingis. Það var haft alveg sérstaklega í huga þegar þessi drög voru gerð og

þegar farið var yfir þau og allur undirbúningur miðaðist við að reglugerðin væri framhald af anda

laganna.

Hv. 5. þm. Reykv. óttast að hér verði um mikið bákn að ræða. Þau sjónarmið eiga að sjálfsögðu

alveg rétt á sér og ég leyni því ekkert að auðvitað verður þarna um starfslið að ræða, ekki síst vegna

þess að það kemur í ljós að það er útlit á því að verkefni umboðsmanns Alþingis verði allmikil. Það er

þegar spurt mikið um hvenær umboðsmaður taki til starfa.

Hins vegar er í 3. gr. skýrt tekið fram hvaða svið það eru sem starfssvið umboðsmanns nær ekki

til. Á því eru verulegar takmarkanir eins og fram kemur í 3. gr. Þar er tekið fram í 6. lið að starfssvið

umboðsmanns nái ekki til stjórnsýslu sveitarfélaga nema ákvarðana sem skjóta má til ráðherra eða

annars stjórnvalds ríkisins. Þessar ákvarðanir varða oft og tíðum mál einstaklinga sem telja að kerfið,

sem við köllum, hafi brotið á sér og því má vísa til umboðsmanns. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram.

Í öðru lagi var þess gætt og þau sjónarmið munu verða höfð að leiðarljósi við undirbúning þessa

máls að umboðsmaðurinn sé óháður framkvæmdarvaldinu og hann sé tengdur Alþingi og sem nánast.

Það felur m.a. í sér að hann hafi ekki aðsetur í Stjórnarráðinu heldur sé óháður því á allan hátt, enda á

hann að reka mál gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég vildi aðeins taka þetta fram, en ég vona, þrátt fyrir þann ágreining, sem hefur komið hér fram

og ég vona að sé ekki djúpstæður, að það verði góður friður um embætti umboðsmanns Alþingis og að

það komi að gagni við að leiðrétta stöðu þeirra sem illa eru leiknir í samfélaginu því að það hefur

komið fram hjá öllum hv. ræðumönnum að sé grundvallaratriði í þessu sambandi.