14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5729 í B-deild Alþingistíðinda. (3860)

331. mál, störf og starfshættir umboðsmanns Alþingis

Guðmundur Ágústsson:

Frú forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg varðandi þá reglugerð sem hér er til umræðu. Ég hef kynnt mér hvernig staðan er í Danmörku, en þar hefur mest reynsla verið á því fyrirbrigði sem heitir umboðsmaður þings. Allt frá árinu 1971 hefur verið starfrækt embætti umboðsmanns þjóðþingsins. Fyrst var þetta mjög smátt, en síðan hefur þetta vaxið og núna, eftir því sem mér skilst, telur embættið 20–30 manna starfslið.

Þær reglur sem hér eru til umræðu taka mjög mið af þeim reglum sem í gildi eru nú í Danmörku miðað við starfsfólk og þau verkefni sem sett eru á umboðsmann Alþingis eru nokkurn veginn þau sömu og eru í Danmörku. Það er ekki þar með sagt

að það sé óæskilegt að hafa svona mörg verkefni á hans herðum. Ég tel þvert á móti nauðsynlegt að til sé í landinu aðili sem geti fylgst með stjórnvöldum, bæði fyrir einstaklinga og síðan og ekki síst fyrir Alþingi.

Eins og málum er háttað nú er eina eftirlitið sem Alþingi hefur með framkvæmdarvaldinu í formi fsp. einu sinni í viku og tel ég það mjög litil áhrif sem Alþingi hefur á stjórnvöld eða á ráðherra sem fara með æðsta vald í málefnum viðkomandi stjórnvalda. Ég tel því að leggja verði mikla áherslu á þann þátt í þessum reglum, en það má ekki hafa það svo mikið að það geti hamlað um of stjórnsýslunni sem því miður hefur eitthvað borið á í Danmörku. Það hefur ekki gert hana eins skilvirka og ætla hefði mátt. En að sjálfsögðu verða þarna að gilda sanngirnissjónarmið eins og í flestu öðru.

Það sem ég vildi líka taka á er það takmarkaða verksvið sem umboðsmanni Alþingis er ætlað að hafa. Ég mundi telja að eins og málum er háttað hér mætti umboðsmaðurinn fara ofan í, a.m.k. að hluta til, aðgerðir bæjarfógeta og sýslumanna og þá með í huga nauðungaruppboð og aðrar aðgerðir sem þar eru framkvæmdar. Þetta eru athafnir sem eru á mörkum dómsathafna og stjórnsýsluathafna og eru kannski þær athafnir sem mest varða fólk í dag. En þessi lög gera ráð fyrir að umboðsmaður Alþingis nái ekki til þessara athafna.

Ég held að við þm. Borgarafl. séum allir sammála um nauðsyn þeirrar reglugerðar sem hér liggur fyrir og í sjálfu sér er ekki deilt um það sem slíkt né hve mikil réttarbót er að hafa umboðsmann. En það sem við höfum verið að gagnrýna er að ekki er í þessum starfsreglum kveðið nákvæmlega á um hve stór stofnun umboðsmaður Alþingis á að vera. Í tillögunum kemur ekkert fram um það. Það eina sem fram kemur er að Alþingi ákveði í fjárlögum ár hvert hve verja eigi miklum peningum til þessa embættis. Ég held að bæði forsetar og formenn þingflokka þurfi að athuga þennan þátt betur og líka hvernig starfsemi umboðsmanns megi vera betri.

Ég held að þær umræður sem hér hafa farið fram séu af hinu góða. Þó svo að þessar umræður hafi verið til að veikja kannski að einverju leyti stoðir þessa embættis, sem á að vera mjög traust og skapa tiltrú meðal almennings, held ég að alþm. verði þegar lög eru sett að athuga alla þætti málsins til þess að ekki komi upp síðar einhver álitaefni sem betur hefði verið leyst úr þegar reglurnar voru samþykktar.