14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5730 í B-deild Alþingistíðinda. (3861)

331. mál, störf og starfshættir umboðsmanns Alþingis

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Sú reglugerð sem hér liggur fyrir eða drög að reglugerð hefur verið undirbúin af forsetum og umboðsmanni Alþingis. Þar hefur þess verið gætt að allir þeir, sem hugsanlega gátu haft um þetta að segja, gætu komið nálægt því, haldið fundi með formönnum þingflokka, sem væntanlega hafa þá flutt málið yfir til sinna þingflokka, og niðurstöður eru þær sem hér birtast. Þess vegna koma þær athugasemdir, sem hv. 5. þm. Reykv. hefur komið með hér, alveg í bakið á okkur og reyndar hygg ég að það sé farið með fleiri en mig á þann veg að ég skil ekki alveg hver er kjarni þeirra athugasemda sem fram eru bornar.

Það er sjálfsagt svo alltaf að ekkert er fullkomið sem gert er, en þess var freistað að ganga þannig frá málum að þm. gætu verið sammála um þessa reglugerð. Þessari reglugerð má breyta að fenginni reynslu. Reglugerðin er sniðin með það í huga hvernig þessum málum er komið annars staðar og laðað að íslenskum aðstæðum.

Það kom vissulega til greina að kveða á um hversu margir ættu að starfa við þessa stofnun og binda það í reglugerð, en það var horfið frá því vegna þess að við sjáum ekki fyrir okkur hvert umfang embættisins verður. En það eru fjárveitingar Alþingis sem segja til um hversu stór og viðamikil þessi stofnun verður þannig að á öllum tímum er hægt að koma að því máli hversu stór þessi stofnun verður.

Ég hygg að það sé almennur vilji fyrir því að embætti umboðsmanns Alþingis njóti mikillar virðingar og trausts og ekki hvað síst hjá þeim sem þangað þurfa að leita. Ég tel að reynslan verði að segja okkur til um hversu umsvifamikið embættið eigi að vera, en ástæðulaust sé að deila um það nú þegar verið er að halda úr vör því hægt er í ljósi reynslunnar að breyta ef mönnum sýnist svo.