14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5735 í B-deild Alþingistíðinda. (3867)

339. mál, Björgunar- og slysavarnaskóli Íslands

Árni Johnsen:

Hæstv. forseti. Öll umræða um öryggismál sjómanna er af hinu góða því þar brennur á og er ástæða til úrbóta mjög rík. Það sem er sérstætt við till. þm. Borgarafl., sem er hér til umræðu, er að það sem óskað er eftir er þegar komið verulega af stað og má segja að það starf hafi hafist fyrir nokkrum árum. Öryggismálanefnd sjómanna, skipuð þm., sem starfaði á árunum 1984–1986 skilaði allmörgum tillögum og vann mjög víðtækt starf til að hnykkja á í öryggismálum sjómanna. Í nefndinni áttu m.a. sæti þrír hv. þm. sem hér sitja inni, Guðrún Agnarsdóttir, Ólafur Þ. Þórðarson og Karvel Pálmason. Meðal tillagnanna sem þessi nefnd skilaði var hvatning til þess að stofnsetja slysavarna- og björgunarskóla. Um það leyti var hafinn undirbúningur að átaki í fræðslu fyrir starfandi sjómenn og hefur það bæði verið unnið fyrir fjárframlag frá hinu háa Alþingi og peninga sem til féllu vegna uppstokkunar í sjóðakerfi sjávarútvegsins.

Slysavarnafélag Íslands varð eins konar verktaki til að framkvæma þessa fræðslu fyrir sjómenn úti um allt land, skyndifræðslu má segja, sem miðast við 34 daga námskeið, fer svolítið eftir fiskiskipum og farskipum. Fræðslunefnd öryggismála sjómanna skipuð af samgrh. hefur haft umsjón með þessum námskeiðum, hefur m.a. farið í sérstaka ferð til Noregs til að kynna sér björgunar- og slysavarnaskóla og eldvarnaskóla sem þar eru staðsettir. Það er inni í því verksviði sem Slysavarnafélagið hefur nú tekið að sér og sett á oddinn að vera forgöngumaður um stofnun fullkomins slysavarnaskóla í landinu þar sem númer eitt er miðað við þjálfun og fræðslu sjómanna og númer tvö landmanna sem þurfa að læra á eldvarnatæki og önnur öryggistæki sem fara vaxandi í fyrirtækjum vítt um land. Þannig er búið að leggja línuna í því starfi sem hér er óskað eftir og ég fyrir mitt leyti tel hvorki skynsamlegt né á nokkurn hátt æskilegt að grípa fram fyrir hendurnar á Slysavarnafélagi Íslands í því brautryðjendastarfi sem það hefur lagt af mörkum í þessum málum.

Það er mikilvægt að ríkisvaldið standi við bakið á þeirri hugmynd sem þegar er verið að vinna. Sérstök nefnd skipuð af samgrh. er starfandi við að undirbúa tillögur og reglur fyrir slysavarnaskóla, nákvæmlega það sama og hér er fjallað um nema að auki er í undirbúningi þeirrar nefndar lögð markviss áhersla á að sinna einnig eldvarnaþættinum sem er stórmál í þessu sambandi og kostar allfjárfreka aðstöðu. Að mínu mati væri þetta verkefni því í góðum höndum ef það yrði áfram unnið innan vébanda Slysavarnafélagsins og á þess vinnusvæði.

Það hefur verið lögð áhersla á það í fræðslunámskeiðunum að fara út um landið, hafa 25–30 manna námskeið í hinum ýmsu sjávarplássum landsins. Sæbjörg hefur í einu tilviki farið eina hringferð og komið við á fáum stöðum, en á hinn bóginn hefur sá háttur verið hafður á að kennarar og gögn hafa verið send á viðkomandi staði sem er auðvitað miklu æskilegra og eðlilegra fyrir staðarmenn víða um land. Höfuðstöðvarnar eru hins vegar hér í Reykjavík og fara vel í höndum Slysavarnafélagsmanna, en hitt er síðan framkvæmdaatriði hvernig á að ná slíkri fræðslu út um alla landsbyggðina og menn hafa þreifað sig áfram í þeim efnum.

Það er miðað við á þessum fræðslunámskeiðum að ná til þeirra 5–6 þús. sjómanna sem eru starfandi og nú þegar hafa liðlega 2000 sjómenn sótt þessi fræðslunámskeið, þriggja til fjögurra daga námskeið, og haft mikið gagn af þeim. Þarna kemur einnig inn í að það er í auknum mæli verið að reyna að leggja áherslu á þennan þátt innan stýrimannaskólanna og vélskólanna og þetta er því í góðum farvegi. Ég hvet til þess að þessu starfi verði haldið markvisst áfram. Þessi tillaga er að þessu leyti á seinni skipunum en hún er jákvæð og að því leyti hægt að taka undir hana en aðalatriðið er að unnið sé fast og ákveðið áfram að því starfi sem er þegar hafið.