14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5736 í B-deild Alþingistíðinda. (3868)

339. mál, Björgunar- og slysavarnaskóli Íslands

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. flm. og meðflm. hans fyrir að hafa vakið máls á þessu brýna viðfangsefni með flutningi þáltill. sem hér er til umræðu. Það er rétt sem fram hefur komið, þetta er aldrei nógu mikið rætt og heldur ekki nógu vel framkvæmt þó að margt gott hafi verið gert.

Eins og fram kom í máli þeirra sem áður hafa talað fjallaði öryggismálanefnd sjómanna einmitt um þetta atriði og þó að ég sé sammála öllum markmiðum sem hér eru lögð fannst mér það koma glöggt fram í umfjöllun nefndarinnar eftir umræður við marga aðila að heppilegast væri, a.m.k. í náinni framtíð, að hafa þetta farskóla fremur en staðbundinn skóla. Það væri mun tryggara að fræðslan næði þannig til sem flestra. Hins vegar er það alveg rétt að námskeiðin mættu vera lengri. Þau eru auðvitað ný af nálinni eins og þau hafa verið rekin og þau mættu gjarnan vera lengur á hverjum stað, en ég er alveg sannfærð um það að enn sem komið er er heppilegra að hafa þetta sem farskóla. Það gæti vel verið að seinna mætti vera einhvers konar móðurskóli eða staðbundinn skóli sem síðan sendi farkennslu víða um landið út frá sér.

Hins vegar langar mig einnig að ítreka, því að það er tekið til í grg. þáltill. að það sé starfandi stýrimannaskóli og námsbraut fyrir vélgæslumenn í Vestmannaeyjum, að auðvitað ættu allir skólar sjómanna, hvar sem þeir eru, að leggja mikla áherslu á öryggis- og björgunarmál og einmitt ekki síst eldvarnir eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns.

Ég tek undir efni tillögunnar að öðru leyti og þakka flm. fyrir að vekja máls á henni.