14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5738 í B-deild Alþingistíðinda. (3870)

339. mál, Björgunar- og slysavarnaskóli Íslands

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim umræðum sem hafa orðið um þessa till. um að setja á stofn björgunar- og slysavarnaskóla Íslands. Það er ekki nokkur vafi á því að menn hafa á undanförnum árum gert sér betur grein fyrir að fræðsla og kennsla í þessum efnum er mjög nauðsynleg. Þar kemur til há slysatíðni, sérstaklega til sjós. Gefnar hafa verið út skýrslur og ráðstefnur haldnar sem benda á að þar hefur verið mjög há slysatíðni. Það er hins vegar alltaf álitamál hvernig á að skipa slíkum málum. Hér hefur verið rætt um hvort þetta eigi að vera farskóli eða staðbundinn skóli. Ég held að það hljóti að stefna í það að þessi skóli, eins og allir aðrir skólar, sé staðbundinn og hægt sé þá að fara með minni námskeið, eins og núna er gert, um landið. Það fer ekki á milli mála að það dettur engum í hug að hægt sé að færa ákveðna hluti á milli landshluta í sambandi við skólahald og það væri þá miklu frekar að hægt væri að gera slíkt ef björgunar- og slysavarnaskóli væri í hverjum landsfjórðungi í sambandi við Stýrimanna- og Vélskólann.

Ég tel líka að þessi umræða hafi verið mjög jákvæð og ég fagna henni. Það er ekki nokkur vafi að svo jákvæð umræða mun leiða af sér að slíkur skóli verði settur á fót. Það hefur að vísu komið upp smámisskilningur í umræðum. Ég veit ekki hvort það stafar af því að menn hafi kannski ekki lesið till. Hv. 1. þm. Suðurl, hélt að við ætluðum að fara að draga þetta úr höndum Slysavarnafélagsins sem er mesti misskilningur. Á það er hvergi minnst, enda er það ekki í okkar verkahring að gera það. Við styðjum einhuga Slysavarnafélagið og ég sem meðlimur í Slysavarnafélaginu í fjölda ára styð það líka.

Varðandi hitt að í okkar grg. vanti umfjöllun um eldvarnir, þá er minnst á það að þessi skóli gæti líka raunverulega þjónað fleirum, eins og t.d. slökkviliðsmönnum, björgunar- og hjálparsveitamönnum. Auðvitað felst það í því ef maður ætlar að fara að þjálfa slökkviliðsmenn að það þarf að fjalla um brunavarnir. Það vita allir að slökkviliðsmenn fjalla um brunavarnir og björgunar- og hjálparsveitamenn fjalla um ýmsa aðra þætti sem of langt mál yrði upp að telja hér.

Ég bendi mönnum á í sambandi við till. að þar er ágætur úrdráttur um ráðstefnu um öryggismál sjómanna sem var haldin 18. sept. 1987. Þar eru mjög fróðleg erindi um þessi mál og þar kemur mjög glögglega fram að menn leggja áherslu á fræðsluþáttinn og ég held að þetta sé alveg í samræmi við það. Það hefur hins vegar vantað að það sé einhver móðurskóli eins og við höfum flutt till. um sem sjái um þessa hluti. Ég vil hvetja menn til þess að standa vel að þessu og miðað við þær undirtektir sem þetta fær hér þykist ég vita að björgunar- og slysavarnaskóli verði settur á laggirnar í náinni framtíð.