14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5740 í B-deild Alþingistíðinda. (3872)

339. mál, Björgunar- og slysavarnaskóli Íslands

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram að öll umræða, eins og hefur átt sér stað í dag, hlýtur að vera af hinu góða. Till. eins og hér er flutt, þó málið sé í höndum nefnda til vinnslu, hlýtur líka að vera af hinu góða. Við könnumst við það hér á hv. Alþingi að m.a.s. þarf oft að ýta við málum sem búið er að samþykkja fyrir löngu síðan, en ekkert er í gert. Ég er ekki að meina að það eigi við í þessu tilviki, en umræðan sem slík hlýtur að vera j ákvæð.

Ég tek mjög undir það, sem hér hefur komið fram og vitnað var í áðan, að sú nefnd sem skipuð var á sínum tíma skilaði mjög merkilegu starfi, margþættum og mikilvægum tillögum sem margar hverjar eru komnar til framkvæmda, en sumar vantar á. Ég man ekki betur, verð þá leiðréttur ef rangt er með farið, en að það hafi verið ríkjandi sjónarmið innan þeirrar nefndar að við værum að tala um, ef svo má orða það, hreyfanlegan skóla. Það er kannski klaufalega orðað. Farskóla, ef menn heldur vilja hafa það svo, segir hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir. En það var í mínum huga og er enn miklu skynsamlegra ef það á að ná til allra þeirra aðila sem við viljum og þurfum að ná til með fræðslu í þessum efnum.

Einhver hv. þm. sagði hér áðan: Við byggjum ekki upp stóran skóla nema á einum stað. Er ekki verið að byggja upp háskóla á öðrum stað nú heldur en hérna á stóra staðnum? Er nokkuð öðruvísi að þjóna með fræðslu, og það mikilli fræðslu, ekkert.stuttum námskeiðum endilega, þau geta verið lengri og fer eftir þróuninni hvernig hún verður á tímanum, það er hægt að þjóna með slíkum námskeiðum út um allt land, námskeiðum sem koma til með að skila nákvæmlega sama og það gerði hér í Reykjavík, þó að skólinn væri, að öðru leyti en því að það kostaði minna. Það kostaði minna en mundi skila sér betur til þeirra sem eiga að njóta þess.

Það er auðvitað staðreynd sem a.m.k. landsbyggðarfólk kannast við að það er ekki alltaf hægt að fá einstaklinga til að setjast á skólabekk langtímum saman fjarri sínum heimilum. Það á ekkert síður við um sjómenn heldur en annað fólk, og kannski á það frekar við um þá. Þess vegna er það nauðsynlegt að mínu viti að haga þeim aðgerðum, sem ég tel að þegar séu hafnar að því er þetta varðar að hluta til, í samræmi við það að við getum flutt kennsluna til fólksins, við getum flutt fræðsluna til fólksins út á staðina. Með þeim hætti held ég að við þjónum málinu best. Kannski verður þessi tillaga og umræðan um hana til þess að ýta enn frekar á að betur verði gert en þegar er búið, þó ekki sé verið að vanþakka það nema síður sé, því ég hygg að það hafi ekki verið jafnmikið gert um nokkuð langan tíma eins og gert hefur verið á undangengnum fjórum til fimm árum að því er varðar öryggismál sjómanna og það skal síður en svo vanþakkað. En auðvitað má betur ef duga skal í þeim efnum. Því að við þurfum að vera miklu framar að því er þetta varðar.

Ég fagna því umræðunni um þessa till. þó að ég telji að málið sé komið á þann rekspöl að það eigi ekki að víkja þar af leið. Það á heldur að ýta undir það sem þegar er byrjað á og það getur umræðan um þessa till. og hún sjálf gert.