14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5746 í B-deild Alþingistíðinda. (3877)

358. mál, hálendisvegir

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Umræða um byggðamál hefur verið uppi nú um allmörg ár, ekki síst í sambandi við þá stórfelldu byggðaröskun sem orðið hefur á síðustu áratugum og þann kipp sem varð til hins verra fyrir landsbyggðina síðustu tvö árin. Aldrei hefur fólksstraumurinn af landsbyggðinni verið eins stríður og ekki sér fram á að neitt lát verði á því í náinni framtíð. Byggðamál og byggðaþróun er oft til umræðu en þar við situr. Það ber lítið á því að menn hafi hug á að marka einhverja stefnu í þeim málum sem þó er meira en tímabært. Hvernig ætlum við að nýta landið? Hvernig er skynsamlegast að byggð þróist í landinu? Hvaða lífi ætlum við að lifa hér í byggðum landsins yfirleitt? Og hvað þarf að gera til að áfram megi þróast á landsbyggðinni menningarlegt mannlíf? Slíkar spurningar hljóta að vakna þegar við horfum á það nú að í sumum sveitum horfir til auðnar. Byggðin þolir ekki frekari gisnun. Og landbúnaðurinn er varla kominn á lappirnar enn eftir kollhnísinn.

Við sjávarsíðuna fellir fólk kjarasamningana og aðbúnaðurinn að framleiðsluatvinnuvegunum til sjávar og sveita er á þann veg að þeim er ekki fært að greiða fólki þau laun sem þarf til lífsviðurværis. Með þessar staðreyndir í huga hljótum við að spyrja: Hver verður framtíð landsbyggðarinnar? Reyndar ættum við frekar að spyrja okkur sjálf: Hvernig viljum við að hún verði? Svör við þeirri spurningu eru brýn. Það verður að hefjast handa við að móta alhliða byggðaþróunarstefnu og snúa til baka því sjálfvirka færibandi sem stöðugt flytur fjármuni og fólk af landsbyggðinni til suðvesturhornsins. Sú tilfærsla er komin yfir hættumörk.

Þáltill. sem hér liggur fyrir bendir á möguleika til hagsbóta fyrir landsbyggðina. Ég fer ekki nánar út í rökstuðning fyrir því. Það hefur hv. flm. þegar gert með ágætum. En ég vil benda hv. þm. á bók Trausta Valssonar skipulagsfræðings sem heitir „Hugmynd að fyrsta heildarskipulagi Íslands“. Þar gerir höfundur grein fyrir byggðaforsendum hér á landi, kemur á framfæri hugmyndum að drögum að skipulagi landsins alls og leggur fram tillögur að vegaáætlun um hálendið svo að drepið sé á nokkra þætti. Höfundur kemur þar inn á það, sem oft hefur verið rætt hér, að bætt og aukið vegakerfi sé einhver arðbærasta framkvæmd á margvíslegasta máta eins og rakið er í grg. með till. Þannig stækki atvinnu- og þjónustusvæði. Tenging byggðarlaga og ýmiss konar ávinningur í ferðamálum kemur líka til.

Herra forseti. Þessi till. lýtur að könnun á áhrifum vegagerðar á hálendinu á þróun byggðar í landinu. Ég held að í ljósi þess sem ég vék að um byggðamál fyrr í máli mínu getum við verið sammála um að slík könnun sé ekki einungis æskileg heldur nauðsynleg og hún sé gerð sem fyrst. Ég er ekki í vafa um að þessi könnun leiðir í ljós hagkvæmni vegalagningar um hálendið, ekki síst með tilliti til væntanlegra raflínulagna milli Norður- og Suðurlands, svo og styttingar á flutningaleiðum milli landshluta, og þá má ekki gleyma því að með góðu vegakerfi gefast aukin tækifæri í sambandi við ferðamannaþjónustu. Okkur öllum verður auðveldara að kynnast landi okkar frá sjónarhólum sem nú eru ekki í alfaraleið.

Við kvennalistakonur styðjum þessa till. og væntum þess að hún fái skjótan framgang.