14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5747 í B-deild Alþingistíðinda. (3878)

358. mál, hálendisvegir

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú þáltill. sem hér er mælt fyrir er ofur eðlilegt mál. Ég tel að það sé fyllilega ástæða til þess að unnið sé úr tæknilegum og náttúrufræðilegum upplýsingum sem nú liggja fyrir hjá ýmsum stofnunum og mundu nýtast við áætlanagerð um vegaframkvæmdir á hálendinu. Það er ekki nema sjálfsagt að slíkum gögnum sé ekki aðeins haldið til haga heldur sé leitast við að samræma þær aðgerðir sem ráðist er í hverju sinni og tengst geta hugsanlega vegagerð sem nýttist til frambúðar og yrðu þegar tímar líða mikilvægar samgönguæðar milli landshluta. Ég get að þessu leyti tekið alveg undir með hv. flm. þessa máls að þetta er mjög eðlilegt viðfangsefni og góðra gjalda vert.

Ég vil hins vegar benda hv. 1. flm. þessa máls á, um leið og ég óska honum til hamingju með það sem ég hygg að sé fyrsta ræða hans hér á Alþingi, að það hefur ekki verið skammtað það rúmt til vegamála í þessu landi á undanförnum árum að ástæða sé til þess að ætla að við séum aflögufærir til að fara að leggja verulegt fjármagn til vegagerðar af því tagi sem hér er um að ræða alveg á næstunni. Þannig tel ég að hér sé um framtíðarmál að ræða sem fyrst og fremst verði á dagskrá ef ráðist er í vegagerð vegna annarrar mannvirkjagerðar eins og línulagna eða virkjana, vegagerð sem gæti nýst inn í það samhengi sem tillaga þessi fjallar um.

Ég bendi á að þó að það séu ekki stjarnfræðilegar tölur sem hér eru á ferðinni, síst í hugum þeirra sem hafa staðið að mannvirkjum í landinu, eins og flugstöð þar sem umframkostnaðurinn hleypur á milljörðum og eru mannvirkin þó varla vindheld, þannig að það vex mönnum nú kannski ekki í augum. En þegar kemur að vegagerð og verkefnum eins og þeim að tengja saman þéttbýlisstaði innan landshluta, þá er nú ekki rúmt skammtað. Það þekkjum við vel Vestfirðingar og Austfirðingar hvernig málum er háttað í sambandi við tengsl á milli þéttbýlisstaðanna í okkar landshlutum. Auðvitað er það víðar á landinu þar sem menn að vetrarlagi komast ekki með eðlilegum hætti á milli staða jafnvel mánuðum saman. Það væri auðvitað mjög einkennilegt ef Alþingi færi að ráðstafa fjármagni til vega yfir hálendið sem ekki geta þjónað nema fyrst og fremst sumarumferð, ég á þá við verulegar upphæðir, á meðan ekki hefur verið rutt úr vegi þeim hindrunum sem eru á vegi fólks, þúsunda manna í landshlutunum milli byggðarlaga.

Það ætti út af fyrir sig ekki að sitja á mér að taka undir það hins vegar að greiða mönnum götu með eðlilegum hætti um hálendi landsins. Ég hef átt þar margar góðar stundir, margar unaðsstundir, en það má njóta gæða hálendisins, t.d. til ferðamennsku, án þess að hlemmivegir fylgi. Hins vegar er það mjög mikilvægt viðfangsefni að beina umferð um hálendið í ákveðna farvegi og laga þannig til hálendisslóðir, t.d. aðalfjallvegina, sem stundum eru svo kallaðir, Kjalveg og Sprengisandsleið og fleiri slíkar slóðir inn á ferðamannastaði, að þær séu sæmilega færar að sumarlagi og komið verði í veg fyrir jafnhliða óþarfan og mjög spillandi akstur utan slóða. Það er mjög stórt mál sem þarf að taka á fyrr en seinna, því að falleg svæði á hálendinu eru í stórfelldri hættu af náttúruspjöllum vegna aksturs utan slóða um holt og hæðir. Má vera að ég taki eitthvað á því máli með tillöguflutningi áður en þessu þingi lýkur.

Ég vil, herra forseti, af því að tími minn er mjög takmarkaður og margt mætti um þetta mál segja, benda á að það liggja fyrir-og sjálfsagt er það eitt af því sem hv. flm. hafa í huga - skýrslur t.d. raflínunefndar, framvinduskýrsla yfir tímabilið okt. 1977 til des. 1983, gefin út í nóv. 1985, um raflínustæði á hálendinu og hugmyndir þar að lútandi, m. a. um svokallaða Sprengisandslínu niður í Bárðardal eða niður í Eyjafjörð og hugsanlega línulögn milli Akureyrar og Fljótsdals og jafnvel milli Hrauneyjarfoss og Austurlands, þ.e. tengt hugmyndinni um Fljótsdalsvirkjun. Það er sjálfsagt að farið sé ofan í þetta með tilliti til vegabóta ef og þegar í svona línur er ráðist.

Í sambandi við veginn til Austurlands, frá Suðurlandi til Austurlands, vil ég nefna það hér að þessar hugmyndir um raflínu milli t.d. Hrauneyjarfoss og Austurlands gera ekki ráð fyrir því að farinn sé Vatnajökulsvegur hinn forni. Hv. flm. vita eflaust hvar talið er að menn hafi þá farið, þ.e. svokallaða Gæsavatnaleið, sem svo er kölluð nú til dags, leiðina þétt við Vatnajökul norðan Tungnafellsjökuls eða um Vonarskarð og norðan Vatnajökuls um Urðarháls og þaðan yfir upptakakvíslar Jökulsár á Fjöllum. Það er sem sagt ekki meiningin samkvæmt þessum hugmyndum að fara með raflínu þá leið, heldur að farið yrði með hana innst úr Bárðardal, austur yfir Ódáðahraun nánast þvert austur í Fljótsdal: Þannig að sú stytting á vegalengd sem fæst samkvæmt tillögunni með mælingu í loftlínu kemur ekki fram samkvæmt þeirri hugmynd sem þarna liggur fyrir.

Þó að það sé alveg rétt að á svæðinu norðan Vatnajökuls sé úrkomulítið, hvað minnst úrkoma á þessu landi, þá efast ég um að það verði greitt að vetrarlagi að fara þar um, fara með veg sem ætti að vera fær allt árið yfir Urðarháls og svæðið suður af Trölladyngju, svæði þar sem fannir leysir fyrst þegar kemur fram í júlímánuð, að vísu á ruðningsslóð án nokkurrar teljandi vegagerðar, en þar eru ýmsar torfærur á leiðinni. Sandstormar, sem geta á skömmum tíma sandblásið bílana, eru tíðir á upptakasvæði Jökulsár á Fjöllum, eins og menn þekkja væntanlega sem þarna hafa farið um, verstu sandstormar sem gerast á Íslandi. Þannig að ég held að vegagerð yfir það svæði verði seint mjög trygg eða árennileg til að komast þar um nema með hvíldum og bíða lags ef þannig viðrar.

Það liggja líka fyrir veðurathuganir, herra forseti, t.d. frá Sandbúðum og Nýjabæ í skýrslu frá mars 1984. Án þess að kafa djúpt í þau fræði, þá leyfi ég mér að vekja athygli hv. flm. og hv. þm. á því sem segir um Sandbúðir, fáeinar línur um veðurathuganir í janúar 1977, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Sökum þess hve hvassviðrasamt reyndist vera í Sandbúðum má gera ráð fyrir tíðum skafrenningi yfir vetrarmánuðina og geta komið langir kaflar sem óveður hamlar útiveru fólks eins og t.d. á tímabilinu 16.–26. jan. 1977.“ - Og hér liggja fyrir prósentuútreikningar um hvenær ferðaveður var talið ófært yfir vetrarmánuði: Nær 40% í janúarmánuði, yfir 20% í marsmánuði, svo dæmi séu tekin.

En ég ætla ekki að snúa út úr fyrir hv. flm. og alls ekki að letja menn í sambandi við þetta mál, að halda saman upplýsingum og gæta þess að nýta fjármagn sem varið yrði til vegabóta á hálendinu. Það er skynsamlegt og sjálfsagt verkefni. Auðvitað koma þeir tímar að það verður farið á góðum vegum á milli landshluta, á milli Suður- og Norðurlands og vegur austur. Og vegna ferðamanna er alveg réttlætanlegt nú á næstunni að verja nokkrum upphæðum til eðlilegrar og nauðsynlegrar lagfæringar á aðalfjallvegunum, t.d. Kjalvegi og Sprengisandsleið og fleiri vegum, til að greiða götu manna að sumarlagi inn á eftirsótt svæði til náttúruskoðunar.