15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5752 í B-deild Alþingistíðinda. (3881)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta frv. sem hér liggur fyrir sætir í sjálfu sér ekki neinum tíðindum. Frv. gengur einfaldlega út á það að samræma vexti skyldusparnaðar almennum vöxtum sem tíðkanlegir eru í landinu um þessar mundir og að koma í veg fyrir að skyldusparendur tapi stórfé á skattkerfisbreytingunni um áramótin. Það er tillaga sem sagt um að skila aftur því sem skyldusparendur hefðu tapað vegna skattkerfisbreytingarinnar, að skila því aftur í formi vaxta. Í sjálfu sér er ekkert nema gott um þá hugsun að segja sem á bak við frv. er og b-liður frv. um að innstæða beri sömu ávöxtun eftir 26 ára aldur sparanda er auðvitað sjálfsagður.

Ég vil hins vegar varðandi þetta frv. benda á að þarna er gert ráð fyrir því að húsnæðismálastjórn geri tillögur um vexti af þessum innlánum. Ég er ekki viss um að húsnæðismálastjórn sé heppilegasti aðilinn í þeim efnum vegna þess að hún hefur augljósa hagsmuni af því að vextir séu sem lægstir af skyldusparnaði. Það er augljóst að eftir því sem vextir eru lægri af skyldusparnaði, eftir því hefur húsnæðismálastjórn meira fé til ráðstöfunar og öfugt. Þess vegna hefði ég talið að þarna væri eðlilegt að setja inn ákveðið viðmið, vextir af skyldusparnaði verði ákveðnir eins og vextir eru á skuldabréfum ríkissjóðs á hverjum tíma, eins og þeir verða til, þ.e. vextir á spariskírteinum ríkissjóðs. Ég held að það sé mikið eðlilegra heldur en að húsnæðismálastjórn og Seðlabanki og síðan ríkisstjórn séu að versla um þessa vexti með tilliti til annarra efnahagsstærða sem þeir eru að fjalla um. Ég treysti núv. ríkisstjórn ekki í þessum efnum og tel enga ástæðu til að votta henni sérstakt traust með því að ætla henni ásamt meiri hluta stjórnarflokkanna í Húsnæðisstofnun að ákveða vexti á skyldusparnaði. Ég treysti þeim ekki til þess og tel enga ástæðu til að treysta þeim sérstaklega í þessum húsnæðismálum, svo óhönduglega hefur farið um þau núna að undanförnu eins og reyndar stundum áður. Ég mundi þess vegna vilja breyta þessum lið sem varðar vaxtaákvörðunina í þá veru að hún verði ákveðið miðuð við vexti af spariskírteinum ríkissjóðs eða hliðstæðum lánaformum á hverjum tíma. Seðlabankanum, Húsnæðisstofnun og ríkisstjórninni sjálfri verði þar með kippt út úr myndinni.

Í grg. með frv. er gert ráð fyrir því að tekjutap ríkisins hafi numið 80–90 millj. kr. vegna skattfrjáls skyldusparnaðar, byggt á þeirri forsendu að frádráttur vegna skyldusparnaðar nam 465 millj. kr. árið 1986. Það er talið að tekjutap ríkisins á árinu 1987 af þessum ástæðum hafi verið 80–90 millj. kr. Ég dreg þessa tölu í efa. Ég dreg það í efa að skyldusparendur hafi almennt haft það miklar tekjur að þeir hefðu greitt skatta sem nema 25% af sparnaðarupphæðinni eins og hér er gert ráð fyrir. Ég held að tekjutap ríkissjóðs sem þarna er um að ræða hafi ekki verið svona mikið og þar með sé tekjuávinningur ríkissjóðs af skyldusparendum í raun og veru rangmetinn eins og þetta er hér sett upp.

Ég vek einnig athygli á því, herra forseti, að í frv. er sagt: „Við ákvörðun vaxta skal hafa hliðsjón af ávöxtunarkjörum hjá ríkisbönkum og þeim sem ríkissjóður býður á hverjum tíma.“ Vextir hjá ríkisbönkunum á sex mánaða verðtryggðum bankareikningum eru núna 3,9%. Vextir sem ríkissjóður býður um þessar mundir eru um tvisvar sinnum hærri, 89,5%. Og væru bæði þessi viðmið sett inn í lög þá hlyti maður að spyrja: Er það meðaltal viðmiðana sem er tekið eða hvað? Ef það er ætlunin að taka sama viðmið í þessu efni og ríkissjóður býður á hverjum tíma að því er varðar spariskírteini, þá náttúrlega er eðlilegra að sleppa ríkisbönkunum út úr þessu viðmiði. Ég tel frv. þess vegna að þessu leyti gallað og það þurfi nánari athugunar við.

En ég kvaddi mér nú ekki sérstaklega hljóðs, herra forseti, út af þessu frv., ég á kost á því að fjalla um það í hv. félmn., heldur af hinu að fyrir rúmri viku fór hér fram talsverð umræða um húsnæðismál. Þá kom það fram að ríkisstjórnin ætlar að skera niður framlög til húsnæðismála á þessu ári um 100 millj. kr. Hæstv. félmrh. sat það af sér þó að sú ákvörðun væri auðvitað bersýnilegt vantraust á hana af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hún sat það af sér og situr enn á þeim stóli.

Í þeim umræðum kom það fram að hæstv. félmrh. hefði skipað nefnd til þess að gera tillögur um breytingar á húsnæðiskerfinu, hvorki meira né minna, eins og það leggur sig. Og að sögn formanns Alþfl. og fjmrh. landsins, sem tilkynnti þessa nefndarskipun hér á þessum stóli, átti nefndin að skila áliti eftir tíu daga. Ég hygg að þeir dagar séu liðnir eða rétt að verða liðnir. Þess vegna vil ég biðja hæstv. félmrh. að greina hér frá því í hverju nál. er fólgið. Getur stjórnarandstaðan fengið aðgang að þessu nál? Hefur verið fjallað um það í stjórnarflokkunum? Hverjar eru undirtektir stjórnarflokkanna?

Mér finnst það satt að segja mjög sérkennilegt að á sama tíma og hæstv. félmrh. er með heildarendurskoðun í gangi á þessum lögum, á sama tíma og það stendur til að taka þessi mál öll hér fyrir, þá koma hér þrjú frv., raunar fjögur, frá ríkisstjórninni um húsnæðismál á mjög stuttum tíma, sem er svo að segja hvert í sína áttina. Það er frv. til laga um kaupleigu, það er frv. til laga um skyldusparnaðinn, það er frv. sem var gengið frá og varð hér að lögum um áramótin í sambandi við breytingu á forgangsflokkum við lánveitingar Húsnæðisstofnunar ríkisins. Og síðan er það fjórða frv. sem gerði ráð fyrir því að skera niður framlög í Byggingarsjóð ríkisins og verkamanna um 100 millj. kr. Þetta rekur sig auðvitað hvað á annars horn. Það er alveg augljóst mál að það er ekkert rökrænt samhengi þarna á milli. Í einu frv. er verið að auka réttarbætur og bæta stöðu húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda, eins og í kaupleigufrv., en í hinu tilvikinu er verið að flytja frv. sem veikja stöðu húsbyggjenda í heild, sérstaklega þó frv. sem var samþykkt hér um daginn með hjásetu félmrh., frv. sem gerði ráð fyrir 100 millj. kr. niðurskurði í Húsnæðisstofnun ríkisins. Þannig að þetta myndar ekki rökrænt samhengi.

Þess vegna er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. félmrh. úr því að tækifæri gafst til í sambandi við þetta litla frv.: Hvað liður heildarendurskoðun húsnæðislaganna sem var lofað hér af þessum stóli fyrir viku til tíu dögum? Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra sæi sér fært að svara því og ef niðurstaðan liggur fyrir, sem hlýtur að vera eftir yfirlýsingu formanns Alþfl., þá óska ég eftir því fyrir hönd Alþb. að fá aðgang að þeirri skýrslu sem nefndin hefur hugsanlega sent frá sér.