15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5755 í B-deild Alþingistíðinda. (3882)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Fyrir stuttu var í þessari hv. deild til umræðu frv. sem við þm. Borgarafl. í Ed. lögðum fram um skyldusparnað ungs fólks. Var þar um að ræða einn hluta þeirra tillagna sem Borgarafl. hefur unnið að um húsnæðismál. Annars vegar um húsnæðislánastofnanir eða húsbanka og hins vegar um endurskoðun á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, en það var flutt í kjölfar frv. hæstv. ráðherra frá því í október, nóvember á síðasta ári.

Samkvæmt því frv. sem við lögðum fram um skyldusparnað ungs fólks gerðum við ráð fyrir því að sparendur ættu um tvær leiðir að velja til ávöxtunar sparifjárins, annars vegar að hafa fé inni á reikningi Húsnæðisstofnunar með hæstu lögleyfðu vöxtum og hins vegar að fjárfesta í eignarhluta fasteigna sem Húsnæðisstofnun réðist í að byggja fyrir hönd sparandans. Um þessar tillögur sköpuðust töluverðar umræður hér í hv. deild og voru þm. almennt sammála um að það fólk sem með lögum er skyldugt til þess að spara eigi að fá eins hagstæð kjör ef ekki betri en gerist almennt í þjóðfélaginu. Það frv. sem hér er til umræðu stefnir að sama marki, en því miður er það ómarkvisst og má túlka á fleiri en einn veg, sérstaklega að því er varðar ávöxtun þess fjár sem leggja á inn til Húsnæðisstofnunar.

Í mínum huga væri betra, eins og fram kemur raunar hjá hv. 7. þm. Reykv., að mæla um það skýrt í lögunum hvaða vextir skuli vera af þessu fé en ekki eins og kemur fram í frv. að ríkisstjórn Íslands tekur ákvörðun um vexti af innlánum á skyldusparnaðarreikningum hjá Byggingarsjóði ríkisins að fengnum tillögum Húsnæðisstofnunar og umsögn Seðlabankans. Þarna er verið að skapa bákn í kringum þessa ákvörðun. Eðlilegra hefði verið að það yrði bara ákveðið í lögunum að vextir af þessu fé skyldu ákveðnir miðað við einhverjar forsendur og síðan breytast eftir því sem forsendurnar breytast. Að ákveða þetta fyrir eitt ár er einnig mjög óeðlilegt þar sem vextir geta breyst mjög mikið á einu ári.

Til rökstuðnings þessu má benda á að þarna er um að ræða lögbundinn sparnað og þegar með þeim hætti er verið að leggja álögur á ákveðinn hóp manna er það mjög eðlilegt að ríkisvaldið bjóði á móti ávöxtunarkjör sem eru ekki lakari en það sem gengur og gerist í þjóðfélaginu. Ég tel að þetta verði að koma skýrt fram og út frá þessari forsendu göngum við, þm. Borgarafl., í því frv. sem við lögðum fram og var til umræðu að mig minnir um miðjan febrúar.

Það kom fram í máli hæstv. félmrh. að sú breyting sem varð á skattalögum núna um áramótin hafi verið til tekjutaps fyrir sparendur. Dreg ég það mjög í efa samt, þó svo að það sé nú ekki til rökstuðnings þessum kröfum sem hér eru né lagt fram hér, þar sem munurinn á innstreymi og útstreymi er samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar mjög lítill og samkvæmt fyrri skattalögum er ekki hægt að draga frá lögbundinn skyldusparnað hjá þeim sem tóku hann síðan út á sama ári eða þá voru í þeim hópi manna sem átti þess kost að taka hann út.

Ég hélt því fram við umræðu þess frv. sem nefnt var hér áðan, sem við þm. Borgarafl. lögðum fram, að það þurfi að gera róttækar breytingar varðandi þennan lið fjárheimtu Húsnæðisstofnunar á grundvelli þeirra talna sem liggja fyrir um þær tekjur sem Húsnæðisstofnun hefur af þessu fé. Það voru aðeins 85 millj. á síðasta ári sem fengust inn með þessum hætti og þess vegna vaknar sú spurning hvort þetta fyrirbrigði, sparnaður hjá ungu fólki, sé ekki úrelt tæki til sparnaðar. Það er ljóst að þegar þetta var sett á var miklu fleira ungt fólk úti á vinnumarkaðinum en nú er. Nú er meiri hluti ungs fólks á aldrinum 18–25 ára í skólum og viðurkennt hjá öllum að ekki er hægt að ætlast til þess að fólk sem er í skólum spari. Síðan er spurning um þann tilgang sem þetta á að þjóna fyrir þetta unga fólk og í mínum huga er eini hvatinn til þess að fólk hafi peninga þarna inni að það fái fullkomna ávöxtun eða það geti séð að þetta geti komið því til góða síðar meir. Þá má ekki byggja það þannig upp að þarna sé um lélega vexti að ræða heldur verður að sýna fram á að þarna séu einir bestu vextir sem fáist í þjóðfélaginu. Ég tel að mjög áríðandi sé að löggjöfin verði þannig og það komi skýrt fram í lögum að svo skuli vera. Ég held hins vegar að lögin, eins óg þau eru hér upp sett, þjóni ekki þessu markmiði. Þarna er verið að flækja einfaldan hlut um of, að það skuli vera ríkisstjórnin sem taki þessa ákvörðun en ekki að þetta skuli vera lögbundið eins og ég mundi telja eðlilegt.

Það má líta á Húsnæðisstofnun í þessari merkingu eins og hér kemur fram sem innlánsstofnun og almennt er talið í þjóðfélaginu að innlánsstofnanir eigi að þjóna þeim sem leggur inn peninga hjá þeim, en þarna erum við komnir eiginlega í andstöðu við það. Þarna erum við að hugsa, með þessari lagasetningu, frekar um þann aðila sem nýtur góðs af þessu fé eða þann sem ráðstafar fénu. Það er ekki tekið mið af hagsmunum sparandans sem slíks.

Ég minntist á það í máli mínu áðan að mér fyndist líka mjög eðlilegt að þessir vextir væru breytilegir en ekki tekin ákvörðun um þá einu sinni á ári. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvaða rök séu fyrir því að taka ákvörðun aðeins einu sinni á ári í staðinn fyrir að hafa þetta bara eins og almennt gerist í þjóðfélaginu að vextir breytist eftir því hver verðbólgan er í hvert og eitt skipti. Ég sé ekki hvaða rök eru frekar fyrir því þarna að hafa vexti fasta heldur en annars staðar.

Ég fagna því hins vegar að hæstv. félmrh. skuli leggja fram þetta frv. en bendi samt á að það hefði verið nægilegt að gera ýmsar breytingar á okkar frv. og hafa það sem umræðugrundvöll. Ég held að í þessu frv. sé ekki stigið spor í nógu rétta átt þótt vissulega sé það í áttina að það fé sem liggur inni hjá Byggingarsjóði eða Húsnæðisstofnun fái a.m.k. sæmileg kjör.

Ég vonast eftir því að frv., eins og það frv. sem við lögðum fram, þm. Borgarafl., fái umræðu í hv. félmn. þar sem þessi mál verði rædd og niðurstaðan verði a.m.k. sú að þetta fólk fái þá ávöxtun sem við þm. viljum að það fái.