15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5757 í B-deild Alþingistíðinda. (3884)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns, þar sem hún kom inn á að töluvert vantaði upp á að eftirlit með skilum á skyldusparnaði frá atvinnurekendum væri eins og skyldi, var vissulega ástæða til þess að hafa af því áhyggjur. Þau voru ekki sem skyldi, en ég tel að þarna hafi verið verulega úr bætt og samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá veðdeildinni er þetta nú í miklu betra horfi. Í fyrsta lagi er það vegna þess að sl. haust fékk veðdeildin ýmis gögn sem ekki voru áður fyrir hendi, t.d. frá ríkisskattstjóraembættinu sem veitti upplýsingar um launagreiðslur atvinnurekenda. Með tilkomu staðgreiðslukerfis skatta verður líka um betri skil að ræða og enn fremur er nú farið að nota fullkomnara tölvukerfi til að fylgjast með þessu. Ég vænti þess því að það sem hv. þm. benti á sé í betra horfi en áður var. Það var vissulega ástæða til þess að benda á þetta en ég vænti þess að þetta hafi lagast.

Varðandi ummæli hv. þm. Svavars Gestssonar þar sem hann benti á það sem fram kemur í grg., hver frádráttur af skyldusparnaði var á árinu 1986 og hverju tekjutap ríkissjóðs vegna þessa liðar hafi numið á sl. ári, er þetta mat fengið frá ríkisskattstjóraembættinu. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega sem slíkt, en ég vænti þess að þetta sé rétt sem fram kemur.

Hv. þm. Svavar Gestsson og einnig hv. 11. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson bentu á það að ekki væri um fasta viðmiðun að ræða í frv. að því er varðar ávöxtunarkjörin og mér fannst þeir gagnrýna það að það væri ríkisstjórnin sem ætti að ákveða vexti að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar. Það voru vissulega ýmsar leiðir kannaðar í þessu efni, en þetta varð niðurstaðan, bæði eftir umfjöllun málsins í þeirri nefnd sem hafði það til skoðunar og eins eftir umfjöllun málsins í húsnæðismálastjórn. Þetta er sami háttur og hafður er á að því er varðar ákvörðun um vexti af lánum Byggingarsjóðs ríkisins og fram kemur í húsnæðislöggjöfinni. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að vantreysta húsnæðismálastjórn í þessu efni, en ríkisstjórnin á að fá tillögu frá henni um þetta. Í húsnæðismálastjórn eru fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnmálaflokkanna eiga þar líka sæti þannig að ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að vantreysta þeim í þessu efni.

Að því er varðar spurninguna um það hvort eðlilegra hefði verið að hafa þarna neglda niður í frv. nákvæma viðmiðun, þá var það vissulega álitamál sem líka var til umfjöllunar í nefndinni, en þetta var niðurstaðan. Það var talið að með þessum hætti fengist betra svigrúm til þess að breyta ávöxtunarkjörum ef aðstæður breyttust og auðveldara væri að gera slíkt með reglugerðarbreytingu en að þurfa að leggja það fyrir þingið í hvert skipti ef aðstæður breyttust. Það var ástæðan til þess að þetta var niðurstaðan eins og hún var lögð fyrir þingið. Í sjálfu sér er mér ekkert fast í hendi í því efni hvor leiðin er farin. Ég tel þó skynsamlegra að hafa þennan háttinn á, en nefndin, sem fær þetta mál til umfjöllunar, mun sjálfsagt vega og meta báða þessa kosti sem vissulega eru þarna fyrir hendi.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurðist einnig fyrir um störf nefndar sem ég hef skipað til þess að skoða hvaða valkostir eru fyrir hendi við endurskipulagningu á húsnæðiskerfinu. Þessi nefnd hefur starfað um nokkurra vikna skeið, frá því í byrjun febrúar ef ég man nákvæmlega rétt, og hún mun skila af sér innan viku að mér er tjáð. Ég held að allir séu orðnir sammála um það að nauðsynlegt sé að endurskipuleggja húsnæðislánakerfið og því mun verða flýtt eftir föngum. Þar geta vissulega komið upp ýmsir valkostir sem þarf að skoða í þessu efni og líka hvernig tengingin verður við núverandi kerfi ef fara á yfir í nýtt kerfi. Þar koma því vissulega mörg vandamál upp, en ég taldi nauðsynlegt að hafa þessa vinnu með þeim hætti sem ég hef gert, að þessi nefnd fengi það verkefni að leggja til valkosti í þessu efni, vinna útreikninga sem þurfa að liggja til grundvallar og síðan þurfa að sjálfsögðu aðilar vinnumarkaðarins að koma að þessu verkefni. Skýrsla þessarar nefndar mun væntanlega liggja fyrir innan viku tíma. Þá verður væntanlega strax farið í það að fá aðila vinnumarkaðarins í nefnd til þess að fjalla frekar um þetta mál og ég stefni að því að leggja fram frv. varðandi endurskipulagningu á húsnæðiskerfinu á næsta þingi.