15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5760 í B-deild Alþingistíðinda. (3886)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. 7. þm. Reykv. að ég held að það sem er mest aðkallandi í þjóðfélaginu núna fyrir hinn almenna borgara sé nýtt húsnæðislánakerfi. Það kerfi sem við búum nú við er algerlega hrunið og þær lækningar sem hafa verið gerðar á því eru eins og að stoppa í lítið gat á margslitnum sokki. Það er ábyrgðarhluti að búa við svona kerfi og gera ekki neitt að segja má. Við þm. Borgarafl. höfum lagt fram mjög veigamiklar og, að ég tel, góðar tillögur í húsnæðismálum. Annars vegar, eins og kom fram í fyrri ræðu minni, um húsnæðislánastofnanir eða húsbanka og hins vegar um breytingar á núverandi kerfi er segja má að endurskoði allt húsnæðislánakerfið. Hugsunin var sú að endurskoðunin hafi í för með sér að ungt fólk og þeir sem eiga við félagsleg vandamál að stríða að einhverju leyti og láglaunafólk fái lán frá húsnæðismálastofnun en þeir sem betur eru settir taki lán í gegnum húsbanka. Ég held að þetta kerfi, sem við höfum svo margoft lýst, sé eina lausnin sem sjáanleg er í dag, enda er það tekið upp að fyrirmynd nágrannaþjóðanna og hefur gefist mjög vel, bæði í Danmörku, Svíþjóð og svo Vestur-Þýskalandi, þar sem þetta er upphaflega upprunnið, frá tíð Péturs mikla.

Mig langar að einu leyti að spyrja hæstv. félmrh. út í frv. sem hér liggur frammi sem ég gleymdi því miður að minnast á áðan, þ.e. um reglugerð sem á að setja um skyldusparnað, hvað felast eigi í þeirri reglugerð og hvort þar eigi aðeins að tala um vaxtaprósentuna sem á að vera á þessum lánum eða hvort eigi að fara eitthvað nánar út í hluti. Ég skildi ekki almennilega hvað átti að setja í reglugerð þegar ég renndi yfir þessa lagagrein.

Ég ítreka það hins vegar, sem ég sagði áðan og fram hefur komið í máli hv. 7. þm. Reykv., að ég held að tíma okkar þm. væri mjög vel varið lægi hér fyrir frv. frá ríkisstjórninni eða þá það frv. sem ég talaði um áðan, frá Borgarafl., og við mundum bara taka okkur saman, samstillt átak frá öllum flokkum, og búa til nýtt húsnæðislánakerfi. Ég veit að hæstv. félmrh. hefur mikinn áhuga á að endurskipuleggja þetta kerfi, en því miður bólar mjög lítið á því að heilsteyptar tillögur hafi verið lagðar fyrir enda þótt hún hafi á undanförnum árum talað mikið um að breyta þurfi þessu kerfi.

Ég þakka að lokum hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem við þm. Borgarafl. fengum við þeim ábendingum sem við ræddum um. Ég vonast eftir því að þetta mál sem hér er aðallega til umræðu verði samþykkt fyrir hlé.