15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5761 í B-deild Alþingistíðinda. (3887)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég get vissulega tekið undir það, sem fram kom hjá tveimur hv. síðustu ræðumönnum, að vandinn í húsnæðismálum er mjög mikill og það er, eins og hv. síðasti ræðumaður orðaði það, „ábyrgðarhluti að gera ekki neitt“ en ég get samt ekki tekið undir það að ég hafi ekkert verið að aðhafast í húsnæðismálunum frá því ég kom í stól félmrh. Það hefur verið unnið mjög mikið að þessu máli í félmrn. á undanförnum mánuðum og kannski hefur ekkert mál í ráðuneytinu fengið eins mikla umfjöllun og ekki verið lögð eins mikil vinna og tími í neitt mál eins og þetta, húsnæðismálin.

Það frv. sem var lagt fram á haustdögunum tók vissulega miklu lengri tíma en efni stóðu til hér í þinginu og í raun tafði það að hægt væri að hefja þá heildarendurskoðun á húsnæðiskerfinu og endurskipulagningu sem ég ætlaði að fara út í miklu fyrr en raun varð á, en á því eru þær skýringar sem ég hér nefndi.

Hv. þm. Svavar Gestsson veit það mætavel að svo umfangsmikið verkefni eins og heildarendurskipulagning á húsnæðislánakerfinu og á svo til nýrri löggjöf um húsnæðismál, frá því 1986, er bæði umfangsmikil, erfið, flókin og viðkvæm. Það eru margir aðilar sem þurfa að koma að þessum málum og það eru margir aðilar sem ná þarf samkomulagi við að því er varðar endurskipulagninguna á húsnæðislöggjöfinni. Ég bendi líka hv. þm. á það að það er alveg ljóst, og það vita hv. þm., að fjármagninu fyrir árið 1988 hefur þegar verið ráðstafað. En auðvitað er betra því fyrr sem við getum farið út í endurskipulagningu og nýtt húsnæðislánakerfi. Ég held þó engu að síður að frv. sem var samþykkt hér fyrir jólin hafi verið nauðsynlegt. Það skapar okkur nauðsynlegt svigrúm til þess að fara fyrr út í nýtt húsnæðislánakerfi vegna þess að ella er ljóst að við hefðum bundið fjármagn húsnæðislánakerfisins kannski þrjú ár fram í tímann á mjög stuttum tíma, en þó það frv. hafi ekki verið stórt sem lagt var fram á haustdögunum gerir það þó það að verkum að við getum farið fyrr út í nýtt húsnæðislánakerfi.

Að því er varðar þá vinnu sem nú er í gangi er náttúrlega ljóst að þessi nefnd hefur ekki starfað mjög lengi og hún hefur mikið verk með höndum sem er undirbúningur að þessu verki og ekki óeðlilegt þó að hún hafi tekið sér þarna fimm eða sex vikur í þetta verkefni. Þegar sú skýrsla liggur fyrir er auðvitað sjálfsagt að stjórnarandstaðan fái hana í hendur eins og stjórnarflokkarnir og aðilar vinnumarkaðarins og kynni sér efni hennar. Eftir því sem ég hef séð í fyrstu drögum að þessu kemur þarna ýmislegt fróðlegt fram sem mun gagnast mjög við þá vinnu sem nú fer í gang í þessu efni. En ég er ekki svo bjartsýn að ætla að það geti náðst það samkomulag við þá aðila sem þarf að ná samkomulagi við í þessu efni til þess að það fái framgang þann stutta tíma sem eftir lifir af þessu þingi. Skýrslan, þegar hún liggur fyrir, mun verða send stjórnarandstöðunni jafnt sem stjórnarflokkunum.

Að því er varðar spurningu hv. síðasta ræðumanns kemur fram í frvgr. að það eigi að setja nánari ákvæði um vaxtakjörin í reglugerð. Það sem við er átt er auðvitað það að þarna er ekki um fasta viðmiðun að ræða eins og hér var bent á, þannig að sú viðmiðun sem verður notuð á hverjum tíma, sem gæti þá breyst, yrði sett í reglugerðina. Það komu fram hugmyndir t.d. um það að ávöxtun gæti hækkað eftir því sem skyldusparnaður lægi lengur óhreyfður inni á reikningi. Það gæti verið ein hugmynd t.d. sem kæmi til skoðunar og yrði þá sett í reglugerð. Það var óhjákvæmilegt að hafa reglugerðarákvæði miðað við það að gengið var frá frv. með þeim hætti sem hér er gert.