15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5764 í B-deild Alþingistíðinda. (3892)

318. mál, almannatryggingar

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 634 höfum við þm. Alþb. hér í deildinni lagt fram frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar. Lagt er til að 5. gr. laganna orðist svo:

„Tryggingaráð skipa sjö menn. Sameinað Alþingi kýs á fyrsta þingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar fimm menn í tryggingaráð og fimm til vara. Þá skulu Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp tilnefna einn fulltrúa í ráðið sameiginlega og Öldrunarráð Íslands einn fulltrúa. Samtökin tilnefna varamenn á sama hátt.

Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalmanna.

Ráðherra ákveður þóknun tryggingaráðs.“ Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta:

„Frv. svipaðs efnis var flutt á síðasta löggjafarþingi en varð eigi útrætt. Flm. var Helgi Seljan. Frv. þetta gerði ráð fyrir tveimur viðbótarfulltrúum í tryggingaráði frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands og skyldu þeir jafngildir þeim fimm fulltrúum sem Alþingi kýs í tryggingaráð.

Efri deild afgreiddi frv. frá sér á þann veg að fulltrúar þessara samtaka skyldu eiga aðild að tryggingaráði sem áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og tillögurétti. En í neðri deild var málið aðeins afgreitt til nefndar sem aldrei skilaði áliti.

Nú er sú breyting gerð frá upphaflegu frv. að Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið tilnefni sameiginlega einn fulltrúa og Öldrunarráð Íslands annan.

Með tilliti til vaxandi og náins samstarfs milli Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins, sem m.a. felst í samstarfshópi þeirra og sameiginlegri félagslegri framkvæmdaáætlun, þykir rétt að gera nú ráð fyrir einum fulltrúa í tryggingaráð frá þessum samtökum og að þau tilnefni hann sameiginlega. Til að koma svo til móts við, að mörgu leyti réttláta, gagnrýni á frv. í fyrra, þar sem ekki var gert ráð fyrir fulltrúa aldraðra í ráðinu, þykir rétt að Öldrunarráð Íslands tilnefni fulltrúa sem eins konar samnefnara fyrir aldraða.

Að öðru leyti vísast til grg. með frv. frá í fyrra þar sem segir:

„Hér er gerð sú tillaga um skipan tryggingaráðs að til viðbótar hinum fimm þingkjörnu fulltrúum, sem þar sitja nú, komi tveir fulltrúar jafnréttháir, þ.e. frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp.

Flm. hefur einnig hugleitt þann möguleika að fulltrúi aldraðra yrði í ráðinu einnig, en vandséð er hvaða aðili gæti tilnefnt fulltrúa þeirra í ráðið. Sé það unnt er um sjálfsagðan hlut að ræða sem ber að athuga í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar.

Tryggingastofnun ríkisins er viðamikil og á hennar vegum fer fram víðfeðm og um leið vandasöm starfsemi. Gleggst sést þetta af frv. til fjárlaga fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir að útgjöld stofnunarinnar nemi nálægt 10 milljörðum kr., eða u.þ.b. 25% ríkisútgjalda. Lífeyristryggingar eru þar upp á um 5,7 milljarða kr. og sjúkratryggingar nema tæpum 3,9 milljörðum kr.

Hér er um málaflokk að ræða sem vissulega þarf og á að fá mikið fjármagn til skipta. Elli- og örorkulífeyrir er nú hvergi nærri því sem vera þyrfti til þess að allir fái þar unandi hlut. Sama er að segja um sjúkradagpeninga og svo mætti lengi telja.

Á borð þessarar stofnunar koma fjöldamörg verkefni til umfjöllunar og úrskurðar og oft mjög vandmeðfarin. Flm. fullyrðir að embættismenn þessarar stofnunar leggi sig mjög í líma við að leysa úr málum og veita sem sanngjarnasta úrlausn. Gagnrýni á ýmislegt, sem þar mætti enn betur fara, á eflaust vissan rétt á sér, enda undarlegt ef svo væri ekki með hliðsjón af þeim fjölmörgu vafaatriðum sem þar er kveðinn upp úrskurður um.

Æðsta ráð þessarar stofnunar er tryggingaráð sem m.a. setur reglur um fjölmargt á grundvelli laganna um almannatryggingar. Þangað er ýmsu því vísað sem málsaðilum þykir ekki hafa fengist viðunandi úrlausn á, auk þess sem tryggingaráð fer með yfirstjórn stofnunarinnar og hefur æðsta vald við helstu ákvarðanir.

Hér er ekki lögð til breyting á kjöri fimm fulltrúa í tryggingaráð á Alþingi og allra síst er hér verið að kasta nokkurri rýrð á þá ágætu fulltrúa sem þar sitja og hafa setið eða þeim vantreyst til góðra verka. Hins vegar eru flest vandasömustu úrlausnarefnin, álitaefnin, á þann veg að þau snerta þá aðila beint og óbeint sem lagt er til að eigi fulltrúa til viðbótar í tryggingaráði. Flm. telur það því bæði eðlilegt og sanngjarnt að þessi samtök eða fulltrúar þeirra setjist þarna inn til ákvörðunar ásamt þeim þingkjörnu fulltrúum sem fyrir eru.

Eflaust mun því haldið fram að hér komi þeir aðilar að málum sem eiga of ríkra hagsmuna að gæta fyrir umbjóðendur sína til að geta tekið hlutlausar ákvarðanir. Hitt vegur þó þyngra að mati flm. að hér munu koma að verki nákunnugir aðilar, fólk sem veit hvar skórinn helst kreppir og sem einnig getur eytt óþarfa misskilningi og tortryggni milli einstaklinga og hópa annars vegar og stofnunarinnar hins vegar.

Í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra, sem úthlutar talsverðu fjármagni og kveður upp erfiða og vandasama úrskurði oft á tíðum, eiga fulltrúar þessara samtaka verðugan og réttmætan sess og ekki hefur heyrst um neina hagsmunaárekstra þar, miklu frekar telur flm. að þetta fyrirkomulag á skipun stjórnarnefndar hafi til heilla orðið og mælir þar af nokkurri reynslu.

Flm. telur einsýnt að á það verði látið reyna á Alþingi hver vilji þess er varðandi tryggingaráð, ekki síst með tilliti til farsællar reynslu af starfi stjórnarnefndar um málefni fatlaðra þar sem fulltrúar fatlaðra ráða svo mjög um mótun alla sem og ákvarðanatöku.

Lögin um málefni fatlaðra eru ung og þar þótti Alþingi nauðsyn til bera að hagsmunaaðilar kæmu ríkulega inn í myndina varðandi alla stjórn. Á þessum mikilvæga og víðfeðma vettvangi eru ekki síðri ástæður fyrir því að fulltrúar þessara þýðingarmiklu og öflugu samtaka komi að málum til heilla jafnt fyrir stofnunina sjálfa sem og umbjóðendur samtakanna. Því er frv. þetta flutt.“

Við þessa ítarlegu grg. Helga Seljans við frv. það reynslu í mörgum þeim málefnum sem þangað koma til umfjöllunar. Þannig væri hægt að taka til hverja einustu nefnd á Alþingi. Við gætum auðvitað með því að kynna okkur mál öðlast ákveðna þekkingu, en reynsluna öðlumst við ekki nema sem beinir þátttakendur.

Það getur reynst þeim erfitt sem alla tíð hefur lifað við góð efni og getað látið eftir sér allt sem hugurinn girnist að reyna að setja sig í spor þess fátæka jafnvel þó viljinn sé fyrir hendi. En þó hlýtur að vera enn erfiðara að setja sig í spor þeirra sem búa við örorku eða skerta starfsgetu af öðrum ástæðum. Það verðum við þó að gera því að það erum við hér á hv. Alþingi og þeir fulltrúar sem við skipum sem höfum lífskjör þessa fólks í höndum okkar og þar höfum við ekki alltaf staðið okkur sem skyldi. Eða er nokkur hér sem getur af sannfæringu sagt að ákvörðun um grunnlífeyri þessa fólks, sem í dag er um 8500 kr., sé réttlát og að tekið hafi verið mið af aðstæðum sem þjóðfélagið býr þessum þegnum sínum? Eða sýnist einhverjum að við höfum munað eftir þessu fólki þegar þetta hús sem við vinnum í var tekið, endurbætt og lagað? Það kann einhver að hugsa að það hefði nú engu breytt um það hvers konar endurbætur voru gerðar á Alþingishúsinu hvort Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp eða Öldrunarráð Íslands ættu fulltrúa í tryggingaráði. Það er rétt, en ég er aðeins að benda á að mikið vantar á að við munum eftir þessum hópum í daglegu starfi okkar og að ef fulltrúar þessara hópa ættu sæti hér hefði e.t.v. orðið að taka tillit til þeirra og þeirra vilja.

Með samþykkt þessa frv., sem við þm. Alþb. í þessari deild höfum leyft okkur að flytja, gefst okkur færi á að tryggja að hluti þeirra ákvarðana, sem teknar verða í framtíðinni og varða þennan hóp þjóðfélagsþegna, sem hér er lagt til að eignist sína fulltrúa í tryggingaráði, verði byggðar á meiri réttsýni en verið hefur, teknar í samráði og fullri samvinnu við þá sem hlut eiga að máli.

Helgi Seljan lauk grg. sinni fyrir ári síðan með orðum sem ég kýs að endurtaka hér og enda þessa tölu mína með:

Lögin um málefni fatlaðra eru ung og þar þótti Alþingi nauðsyn til bera að hagsmunaaðilar kæmu ríkulega inn í myndina varðandi alla stjórnun. Á þessum mikilvæga vettvangi eru ekki síður ástæður fyrir því að fulltrúi þessara samtaka, svo og samtaka aldraðra, komi að málum til heilla jafnt fyrir stofnunina sjálfa sem og umbjóðendur samtakanna. Því er frv. þetta nú endurflutt.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.