14.10.1987
Efri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

8. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Síðasta ræða hæstv. fjmrh. gefur ekki tilefni til ítarlegra ræðuhalda. Honum rann í skap og sárnaði auðvitað eitt og annað sem fram kom hér áður. Það er von. Ég vek hins vegar athygli á því að Alþfl. var aðili að úrræðalausustu og vitlausustu ríkisstjórn sem setið hefur á Íslandi að hans eigin sögn. (Fjmrh.: Hvarf nú á braut fljótlega þegar sannað var ...) Alþfl. var einn af aðilum ríkisstjórnarinnar, greiddi atkvæði með því að ríkisstjórnin yrði mynduð, greiddi atkvæði með því að lögin um afnám söluskatts á matvælum yrðu sett, greiddi atkvæði og átti ráðherra í ríkisstjórninni, Benedikt Gröndal, Kjartan Jóhannsson, Magnús H. Magnússon. Dómur núverandi formanns Alþfl. er þessi: Úrræðalausasta og vitlausasta ríkisstjórn sem setið hefur á Íslandi. Það eru athyglisverðar kveðjur til þessara alþýðuflokksmanna.