16.03.1988
Efri deild: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5784 í B-deild Alþingistíðinda. (3904)

360. mál, umferðarlög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á umferðarlögum sem tóku gildi 1. mars sl. Í frv. eru fimm efnisgreinar. Í þeirri fyrstu er leiðrétt villa sem komst inn í frv. til núgildandi laga á árinu 1986 og var því miður lögfest. Það er hér með leiðrétt.

Í 2. gr. er að finna mikilvæga breytingu þó að setningin sem þar er prentuð láti ekki mikið yfir sér, en með því að fella niður 2. mgr. 64. gr. laganna er unnt að hætta að miða skráningarnúmer ökutækja við lögheimili eigenda og eins fellur þá líka niður skyldan til þess að breyta skráningarnúmerinu ef ökutækið er selt í annað lögsagnarumdæmi eða þegar eigandinn flyst búferlum í annað lögsagnarumdæmi. Kerfi eins og við búum við hér á landi held ég að sé nánast einsdæmi því víðast hvar í öðrum ríkjum er sú tilhögun að sama skráningarnúmer fylgir ökutæki frá nýskráningu til afskráningar. Skráningarnúmer ökutækja sýna hins vegar sums staðar í hvaða fylki eða stórborg bíll hefur upphaflega verið tekinn á skrá.

Breytingin sem hér er gerð tillaga um hefur í för með sér að skráningarmerki bifreiðanna verða í samræmi við svokallað fast númerakerfi á ökutækjum og getur dómsmrh. sett um það nánari ákvæði í reglugerð ef frv. verður að lögum. Fastnúmerakerfi af þessu tagi hefur reyndar um nokkurra ára skeið verið til hjá Bifreiðaeftirlitinu og það er skráð í skráningarvottorð ökutækja. Þetta fastnúmerakerfi byggist á tveimur bókstöfum og þremur tölustöfum og það kerfi skráningar rúmar alls um 575 þúsund númer. Hafa skráningarmerki fyrir þetta nýja kerfi verið hönnuð og er mynd af þeim birt með grg. frv., en á þessum merkjum er einnig reitur fyrir skoðunarmerki ökutækja og reitur þar sem setja mætti í einkenni heimabyggðar ökumanns eða hið alþjóðlega skráningarmerki fyrir Ísland ef menn kjósa að hafa slíkt auðkenni.

Í tillögunum felst hins vegar ekki að sú krafa yrði gerð að ný skráningarmerki yrðu sett á þau ökutæki sem þegar eru í notkun. Núverandi skráningarmerki þeirra gætu fylgt þeim til afskráningar nema eigandinn óski þess að taka upp hið nýja merki. Það hefur komið til tals að hafa áfram möguleika á eða gefa kost á því sem kalla mætti hégómanúmer eða því sem enskumælandi menn kalla vanity-numbers. Það fyrirbæri þekkja menn vel hér á landi en samkvæmt talningu minni er hættan á slíkum númerum heldur minni hér í efri deild en í hinni neðri. Ég vona að það reynist rétt talið. Sums staðar er slíkt leyfilegt, þ.e. að taka upp svona merki sem mönnum finnst hafa að geyma fallega tölu, gegn háu gjaldi. Það gæti komið til greina hér á landi síðar, en enn um sinn er mín tillaga sú að við höldum okkur við það kerfi að menn sæti því hvenær í röðinni þeir koma í skráninguna og fái þá úthlutað tveimur bókstöfum og þremur tölustöfum sem fylgja svo bílnum frá vöggu til grafar. Aðalatriðið er auðvitað það að sú almenna regla verði tekin upp að sama skráningarskilti fylgi jafnan ökutæki.

Með grg. frv. fylgir álitsgerð nefndar sem ég skipaði sl. haust til þess að fjalla um skoðun og skráningu ökutækja. Þar kemur fram áætlun um sparnað af því að taka upp þetta nýja fyrirkomulag og er hann talinn nema a.m.k. 100 millj. kr. á ári og er þá ekki allt talið. Ég tel að við höfum engin efni á að leggja slíkar byrðar á allan almenning til þess að tiltölulega fáir menn geti haldið sínum góðu númerum.

Í 3. gr. frv. er ákvæði þess efnis, og það er að mínum dómi mikilvægasta ákvæðið í þessu frv., að fela megi hlutafélagi sem ríkissjóður á hlut í að annast skráningu ökutækja, skoðun þeirra og eftirlit og taki hlutafélagið þá við hlutverki Bifreiðaeftirlits ríkisins að þessu leyti. Ég vil um þetta efni vísa til nál. sem ég reyndar vitnaði til áðan og fylgiskjalanna sem því fylgja en þetta er allt prentað með grg. frv. Þar kemur fram að vinnubrögð við skoðun ökutækja hafa í stórum dráttum haldist óbreytt í 60 ár og að nauðsynlegt sé að taka þar upp nýtt verklag og bætta tækni. Í því skyni þarf m.a. að koma á fót sérstakri skoðunaraðstöðu með sérhæfðum búnaði og yrði þar stuðst við reynslu nágrannaþjóða okkar og hefur helst verið litið til tveggja ríkja, Svíþjóðar og Vestur-Þýskalands. Í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar er hér lagt til að stofnað verði sérstakt hlutafélag með aðild ríkissjóðs, tryggingarfélaga, fyrirtækja og samtaka er tengjast bifreiðaeign og bifreiðaþjónustu. Síðan yrði samið við þetta félag um að það taki við bifreiðaskoðun, bifreiðaskráningu og fleiri þjónustuþáttum um ákveðið bil ára. Nefndin leggur til að í fyrstu verði samið við félagið um Í2 ára tímabil eða fram til ársins 2000. Innan nefndarinnar var það ítarlega rætt hvort efla ætti Bifreiðaeftirlit ríkisins til þess að byggja þær fullkomnu skoðunarstöðvar sem hún telur þörf á og það varð einróma niðurstaða að fremur bæri að stofna sérstakt hlutafélag um þetta verkefni þar sem þannig gæfist kostur á að virkja frumkvæði, afla stjórnunarþekkingar og fjármagns frá þeim aðilum sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta varðandi ástand ökutækja landsmanna auk þess sem hlutafélagsformið veiti rekstrinum aðhald. Þá hefði hlutafélagið ýmsa möguleika til að afla sér tekna af öðrum verkefnum sem Bifreiðaeftirlit ríkisins gæti eðli málsins samkvæmt ekki gert. Má í því sambandi nefna reynslu fyrirtækjanna Svensk bilprovning aktiebolag í Svíþjóð og vestur-þýska fyrirtækisins TÜV sem auk almennrar bifreiðaskoðunar hafa ýmis önnur járn í eldinum sem lúta að bifreiðaskoðun og eftirliti með ökutækjum.

Í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir að hlutafé hins nýja félags yrði 80 millj. kr. og ríkissjóður eigi rúmlega meiri hluta þess eða um 41 millj. kr. Um þetta voru þó skiptar skoðanir í nefndinni og vildu sumir nefndarmanna að ríkissjóður ætti ekki meiri hluta í félaginu. Ég legg hins vegar til að ríkissjóður eigi meiri hluta en tel þó að helmingseign eða jafnvel minnihlutaeign með einhverjum litlum mun af hálfu ríkisins kæmi líka til greina. Hér er kjarni málsins að virkja áhuga, þekkingu, frumkvæði og ábyrgð aðila eins og þeirra sem hafa staðið að þessari athugun, en þar hafa unnið saman fulltrúar frá Félagi bifvélavirkja, frá Bílgreinasambandinu, frá bifreiðatryggingafélögunum, frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda auk manna sem starfa við bifreiðaþjónustu á öðrum sviðum, m.a. bílaleigu. Ég hef ástæðu til þess að ætla að þessir aðilar sem ég nefndi, tryggingafélög, samtök fyrirtækja sem tengjast bifreiðaeign landsmanna, muni fús til að taka þátt í hlutafélaginu í samræmi við þau drög að félagssamþykktum sem fylgja frv.

Með tillögum nefndarinnar er lagt til, eins og ég sagði áðan, að tekið verði upp gjörbreytt verklag við skoðun ökutækja þar sem beitt verði fullkominni tækni. Árangur þess mun skila sér í auknu umferðaröryggi og bættu viðhaldi ökutækja.

Á sl. hausti kynnti ég fjvn. Alþingis þessi áform sem þá voru á frumstigi og eins voru þeim gerð nokkur skil í fjárlagafrv. og við meðferð þess. Ef þetta frv. verður að lögum þarf að endurskipuleggja eftirlit með ökutækjum á vegum úti og er nú lagt til að það verði falið löggæslumönnum. Þá þyrfti líka að breyta fyrirkomulagi á ökuprófum og kennslu til meiraprófs. Er því lagt til að sérstök nefnd verði sett á fót til að fjalla um þetta mál og tengsl þessarar þjónustu og þessara þátta umferðarmála við skólakerfið og löggæsluna.

Þá kem ég að 4. gr. Þar er í a-lið leiðrétt villa en að öðru leyti felur greinin í sér nánari ákvæði hvað varðar stöðu sveitarfélags sem annast álagningu og innheimtu gjalda vegna stöðvunarbrota samkvæmt hinum nýju umferðarlögum. Er þá m.a. lagt til að heimilt verði að ákveða aukaálag á gjald ef mikill dráttur verður á greiðslu þess og reyndar innheimta það með sérstökum aðgerðum.

Í 5. gr. er loks lagt til að fela megi sveitarstjórn að öllu leyti eða að hluta að framkvæma ákvæði sem varða brottflutning ökutækja. Er talið eðlilegt að sá sem annast álagningu gjalda vegna stöðvunarbrota geti einnig beitt heimildum til þess að flytja ökutækin brott af vettvangi sem standa þannig að þau hafa brotið í bága við reglur um stöðvun og lagningu ökutækja. Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því að nýta sér heimild nýju umferðarlaganna til að taka að sér eftirlit með stöðvunarbrotum innan borgarmarkanna og í viðræðum embættismanna um þetta fyrirkomulag hefur komið í ljós þörf á því að breyta ákvæðum umferðarlaganna í þessa átt. Ég tel það mjög heppilegt fyrirkomulag að sveitarfélögin, sem hafa mestan veg og vanda af umferðinni innan marka bæjanna, beri sem allra mest ábyrgð á þessum málum og það er tilgangurinn með þessum lagaákvæðum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. að þessu sinni, en vísa til grg. og fskj. með henni. Ég tel að hér sé um mjög þarfar breytingar að ræða og legg áherslu á að þær verði samþykktar sem lög á þessu þingi.

Ég legg svo til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.