03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

36. mál, fjöldauppsagnir á Orkustofnun

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Svar við fyrstu spurningu á þskj. 36 frá hv. 4. þm. Norðurl. e. er þetta:

Orkustofnun hefur á undanförnum árum gegnt veigamiklu hlutverki í rannsóknum vegna undirbúnings virkjanaframkvæmda hér á landi. Er þar bæði um að ræða virkjanir á sviði vatnsafls og jarðhita.

Hlutur Orkustofnunar í þessum undirbúningi hefur verið mjög mismikill eða allt frá almennum athugunum á orkulindunum í heild til athugana á einstökum virkjunum og tilhögun þeirra eða vinnslutæknilegum úttektum á afmörkuðum sviðum svo sem útfellingum á hitaveituvatni.

Áherslur og rannsóknir á sviði orkumála hafa breyst á undanförnum árum. Nú er gert ráð fyrir hægari uppbyggingu vatnsaflsvirkjana en áður og hitaveitur hafa verið lagðar í flesta þéttbýlisstaði þar sem heitt vatn er tiltækt. Rannsóknum til undirbúnings virkjunar fyrir Hitaveitu Reykjavíkur að Nesjavöllum er að mestu lokið og framkvæmdir hafnar. Verkefni Orkustofnunar sem beint tengjast virkjunum á sviði vatnsafls eða jarðhita hafa því dregist mikið saman.

Á sl. tveimur árum vann stofnunin einnig að umfangsmiklum verkefnum fyrir varnarmáladeild utanrrn. sem nú er lokið. Tilraunir til að selja verkefni til útlanda hafa enn ekki borið teljandi árangur. Á þessu ári hefur Orkustofnun unnið að verkefnum tengdum vatnsöflun á heitu og köldu vatni vegna fiskeldis, en Alþingi hefur veitt fé sérstaklega til þessa verkefnis.

Auk þess sem áður er talið hafa ýmsar breytingar orðið að undanförnu, svo sem að Jarðboranir ríkisins sem nutu þjónustu Orkustofnunar voru gerðar að hlutafélagi og að Landsvirkjun yfirtók eignir Jarðvarmaveitna ríkisins sem áður voru í umsjá Orkustofnunar. Hér hafa viss verkefni verið flutt frá stofnuninni.

Í fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að draga úr fjárveitingu til stofnunarinnar og er tillaga um nánast óbreytta fjárveitingu að krónutölu frá því sem er á þessu ári. Þar er gert ráð fyrir fækkun starfsmanna.

Við þessar aðstæður hafa stjórnendur Orkustofnunar metið stöðuna svo að verulega muni draga úr sértekjum stofnunarinnar á næsta ári og að óhjákvæmilegt sé að draga starfsemina saman. Stjórnendur Orkustofnunar ákváðu því í lok september sl. að höfðu samráði við iðnrn. að segja upp 18 starfsmönnum í 16 ársverkum frá og með nk. áramótum. Uppsagnir þessar dreifast á allar aðaldeildir stofnunarinnar. Miðað var við að uppsagnir þessar tækju gildi um næstu áramót, enda hefði seinkun ákvörðunar, t.d. þar til fjárlög næsta árs hafa verið afgreidd um áramót, einungis valdið auknum kostnaði á næsta ári. Hefði það jafnvel getað leitt til þess að segja hefði orðið upp fleiri starfsmönnum til að ná endum saman. Auk ofangreindra uppsagna er ekki gert ráð fyrir að ráða í nokkur störf sem losna á næsta ári, þannig að um meiri samdrátt er að ræða en uppsagnirnar gefa beinlínis til kynna.

Eins og hér hefur verið lýst stafa uppsagnir þessar af aðstæðum sem þegar hafa skapast vegna samdráttar í verkefnum og þar með tekjum, bæði sértekjum og fjárveitingum. Þær eru því ekki í tengslum við athugun þá sem fyrirhuguð er á starfsemi stofnunarinnar og getið er um í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar.

Svar við annarri spurningu: Reynt verður að láta ofangreindar breytingar á starfsmannahaldi hafa sem minnst áhrif á verkefni þau sem unnið er að, en að sjálfsögðu verður aldrei komið í veg fyrir að áhrifa gæti í einhverjum mæli. Athugun þeirri sem fyrirhuguð er á starfsemi Orkustofnunar er m.a. ætlað að meta framtíðarrannsóknir og starfsemi Orkustofnunar. Erfitt er að meta áhrif þessara breytinga í dag, en ekki verður séð að um bein áhrif sé að ræða.

Svar við þriðju spurningu: Óhjákvæmilegt er að sníða hverri starfsemi stakk eftir vexti. Það er jafnan svo að þegar um aukningu á starfsemi er að ræða þykir hún sjálfsögð, en þegar um er að ræða samdrátt kemur hann því miður niður á einstaklingum og verður því mun tilfinnanlegri. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að gera rannsóknastofnanirnar rekstrarlega sjálfstæðar en það mun væntanlega hvetja meira til verkefnabundinna ráðninga og hærra sértekjuhlutfalls en nú er.

Með hliðsjón af fyrrgreindum aðstæðum hefur ráðuneytið talið nauðsynlegt að taka starfsáætlun stofnunarinnar fyrir 1988 til endurskoðunar í samstarfi við Orkustofnun og Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Leitað verður leiða til að draga sem frekast er unnt úr útgjöldum. Jafnframt verður óskað eftir hækkun fjárveitinga til að mæta að nokkru skerðingu sértekna. Takist þetta er þess vænst að ekki þurfi að koma til frekari uppsagna á næsta ári. Ekki er um að ræða tilsvarandi samdrátt hjá öðrum stofnunum sem undir ráðuneytið heyra.