03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

36. mál, fjöldauppsagnir á Orkustofnun

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki tími til að gera langar athugasemdir við það sem hæstv. iðnrh. sagði. Mig langar þó til, á þessum stutta tíma sem mér er ætlaður, að harma það að hæstv. iðnrh. skuli beina athygli sinni að mestu leyti að málum innanlands, vegna þess að innanlandsframkvæmdir og innanlandsathuganir eru heldur minni en þær hafa verið í fortíðinni, en minna að því sem á að geta verið stórmarkaður erlendis.

Þegar ég lét af - var rekinn úr embætti iðnrh., má segja, voru samningar við Kína á leiðinni. Það voru samningar sem vísindamenn okkar á Orkustofnun hefðu getað unnið og áttu að vinna. Það voru gerðir samningar við Tíbet sem vísindamenn okkar áttu að vinna og voru að vísu byrjaðir að einhverju leyti. Það voru nemendur frá Kína, frá Tíbet, frá Kenýa sem áttu að koma hingað til þess að læra það sem við getum kennt í háskóla Sameinuðu þjóðanna og það voru mjög athyglisverðir samningar við Ísrael á leiðinni. Það er ekki tími til að skýra þessi mál, en sérstaklega vil ég þó leggja áherslu á þá samninga við Kenýa sem þegar hafa verið undirritaðir og undirbúnir og eru á framkvæmdastigi.

Ég vil líka minna á að það er á vísindalegu rannsóknarstigi nú sala á raforku héðan til Evrópu sem er miklu stærra mál en hægt er að ræða á svona stuttum tíma. Það eru nóg verkefni fyrir okkar vísindamenn og Orkustofnun og ég mótmæli því að mönnum þar sé sagt upp og þekkingin látin þar með fjara út.