17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5843 í B-deild Alþingistíðinda. (3941)

291. mál, tjón Norræna fjárfestingarbankans af gjaldþroti Kongsbergs Våpenfabrikk

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa furðu minni á málflutningi hæstv. ráðherra viðskiptamála. Hér er tvímælalaust um fyrirtæki að ræða sem framleiðir vopn í Noregi sem hefur fengið lán án ríkisábyrgða bara út á það að það er ríkisfyrirtæki og síðar kemur í ljós að ríkið telur sig ekki vera ábyrgt fyrir láninu, svo það er algert skeytingarleysi af hálfu bankaráðsins úr því að það er bankaráðið sem veitir lánið, en ráðherra kemur svo hingað upp og ætlar að bera það á borð fyrir Alþingi Íslendinga að lán til vopnaframleiðslu séu notuð í þessu tilfelli til þess að framleiða stuðara á Volvobíla. Þetta er fráleit og lágkúruleg skýring. Það er langtum betra að segja bara: Okkur urðu á mistök og það er tilfellið og við sem Íslendingar höfum ekki nokkur efni á því að taka þátt í slíkum banka sem Norræni fjárfestingarbankinn er ef um verulegan taprekstur verður að ræða. Í þessu tilfelli er tap á einu láni, en væri tap á bankanum í heild höfum við engin efni á því að taka þátt í þeirri starfsemi svo að ég býð, eins og hv. 13. þm. Reykv., okkar fulltrúum að fara varlega þarna á þessum alþjóðamarkaði í peningamálum.