17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5846 í B-deild Alþingistíðinda. (3947)

292. mál, stjórn Ísraelsmanna á herteknum svæðum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að sé sögulega horft á viðurkenningu Ísraelsríkis meðal þjóða heimsins hefur Ísland átt stóran þátt í því að þetta ríki fékk almenna viðurkenningu. Þess vegna er það harmsefni að sitja nú í dag frammi fyrir þeirri staðreynd að verstu níðingsverk okkar tíma eru unnin á þessum stað, níðingsverk sem minna helst á það að þeir sem að þeim standi hefðu hlotið sérstaka þjálfun hjá nasistum við að skipuleggja hvernig ætti að fara að hlutunum. Ég undirstrika það að ég tel að Ísland verði að hafa forustu um það að mótmæla þessum atburðum sem þar eiga sér stað.