17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5846 í B-deild Alþingistíðinda. (3948)

292. mál, stjórn Ísraelsmanna á herteknum svæðum

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Því miður treysti ég mér ekki til að svara spurningu hv. 13. þm. Reykv. svo að afgerandi sé, en mér virðist vopnin finna sér leið þangað sem átökin eru svo að þetta má vel vera rétt sem fólst í orðum eða spurningu hv. þm.

Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er vissulega ástæða til þess að við Íslendingar látum okkar afstöðu koma mjög, skýrt í ljós og höfum forustu eins og við getum. Ég sagði áðan að ég óskaði eftir því fyrir einum tveimur vikum að þetta mál yrði tekið upp á fundi utanrrh. Þá var það a.m.k. ekki komið á dagskrá og ég held að ég geti sagt að við höfum haft þar vissa forustu um að málið verði þar tekið upp. Ég hef einnig ástæðu til að ætla að sú umræða sem varð um þetta hér á Alþingi 25. febr. hafi komist til skila. Hún kom fram í fjölmiðlum og ég hef heyrt það að eftir því hafi eitthvað verið tekið. En ég tek ábendingu hv. þm. vissulega alvarlega og við skulum athuga á hvern máta við getum fylgt þessu máli eftir.