17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5848 í B-deild Alþingistíðinda. (3950)

309. mál, sjávarútvegsskóli

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Það er spurt um hvort menntmrh. hafi í hyggju að setja á stofn sjávarútvegsskóla í Vestmannaeyjum.

Svar: Menntmrh. hefur ekki tekið ákvörðun um stofnun sjávarútvegsskóla í Vestmannaeyjum. Í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar er kveðið á um að stofnaður verði sjávarútvegsskóli þar sem sameinuð verði kennsla í sjávarútvegsfræðum. Þar er vitnað til þess starfs sem unnið hefur verið á vegum menntmrn. og sjútvrn. um athugun á stofnun sjávarútvegsskóla þar sem sameinuð verði starfssvið Vélskólans í Reykjavík, Stýrimannaskólans í Reykjavík og Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði. Það mál er nú í athugun á vegum ráðuneytanna beggja.

Um nám í sjávarútvegsfræðum að öðru leyti hafa skoðanir manna nokkuð verið að breytast á undanförnum missirum. Í stað þess að setja á fót sjávarútvegsskóla svokallaða víðs vegar um landið hefur hugsun manna frekar beinst að því að koma á fót brautum í greinum sem tengjast sjávarútvegi við ýmsa skóla sem fyrir eru víða um landið. Eitt af því sem sérstaklega kemur til greina í þeim efnum er að koma upp fiskvinnslubraut í Vestmannaeyjum við skóla sem þar eru fyrir hendi, t.d. við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum eða framhaldsskólann. Það mál er nú til athugunar í menntmrn. og ég vonast til þess að niðurstöður þeirrar athugunar liggi fyrir um mitt þetta ár, svo að ekki sé nú lofað meiru en unnt er að standa við.