17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5849 í B-deild Alþingistíðinda. (3952)

320. mál, hreindýr

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til menntmrh. um hreindýr. Fsp. er svohljóðandi:

„1. Hve mörg hreindýr er talið að hafi fallið úr hor það sem af er vetri?

2. Hvaða ráðstafanir hefur ráðherra gert til að útvega fóður svo að ekki falli fleiri dýr?

3. Hefur ráðherra markað sér stefnu í þessu máli er tryggi að atburðir sem þessir eigi sér ekki stað í framtíðinni?"

Með tilvísun til laga nr. 21 frá 1957, um dýravernd, er þetta flutt og einnig með tilvísun til laga nr. 28 frá 1940, um friðun hreindýra og eftirlit með þeim. Ég vil, með leyfi forseta, lesa þær greinar sem skipta máli í þessu sambandi. Í lögum um dýravernd frá 1957 stendur svo í 1. gr.: „Skylt er að fara vel með dýr, svo að þau þjáist ekki að nauðsynjalausu.“ Og í 6. gr.: „Nú sýkist dýr eða lemstrast, og er þá eiganda (umráðamanni) skylt að sjá dýrinu fyrir hæfilegri umönnun, en deyða það, ef dýr eru helsjúk eða lemstur banvæn.“

Í lögunum frá 1940, í 2. gr., segir svo: „Ráðherra er heimilt að skipa sérstakan mann eða menn til aðstoðar yfirvöldum landsins við eftirlit með að lögum þessum sé hlýtt og til þess að hafa að öðru leyti eftirlit með hreindýrum. Kostnaður, sem af þessu kann að leiða, greiðist úr ríkissjóði.“ Og svo segir hér í 3. gr.: „Brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varðar sektum eða varðhaldi. Mál út af brotum á lögum þessum sæta meðferð opinberra mála.“

Það fer ekki á milli mála að menntmrn. ber alla ábyrgð á hjarðbúskap þeim sem stundaður er austur á fjörðum. Ég er ekki stuðningsmaður þess að dýrin verði felld. En mér er óskiljanlegt hvers vegna ekki er hægt að standa að þessum búskap með eðlilegum hætti. Það hlýtur m.a. að vera eðlilegt að fella gömul dýr að haustlagi en láta þau ekki falla úr hor og jafnframt að tryggja það að dýrin falli ekki úr hor þegar áferði kemur í veg fyrir að þau nái í fóður sér til matar.