17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5851 í B-deild Alþingistíðinda. (3956)

320. mál, hreindýr

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ræða hv. 2. þm. Austurl. gæfi tilefni til að flytja hér langt mál. Ef hann telur að vegalengdir á milli Vestfjarða og Austfjarða séu svo miklar að af þeirri ástæðu sé ekki hægt að tala af þekkingu um þessi mál vænti ég þess að hann hætti að ræða utanríkismál hér á þinginu.

Ég vil undirstrika að sú kenning er gömul að það þyki gott að menn og skepnur falli úr hor. En miðað við venjuleg dýraverndarsjónarmið sem almennt hafa verið virt og Þorsteinn Erlingsson hóf að boða öðrum mönnum fremur í þessu landi finnst mér það skoplegt þegar menn halda því fram að það sé sjálfsagður hlutur að ekki eigi að fella gömul dýr, það eigi bara að leyfa þeim að veslast upp og drepast og dreifa hræjunum um Austfirði.