03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

36. mál, fjöldauppsagnir á Orkustofnun

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir með þeim sem hér hafa talað að það er mjög óeðlilega staðið að þessum uppsögnum, sérstaklega með tilliti til þess að það virðist vera fyrst og fremst gert í frv. til fjárlaga sem alls ekki er búið að fjalla um í þinginu né heldur að samþykkja. Ég bendi á að það hefur verið talað um að mörg verkefni sem unnin hafa verið á Orkustofnun muni stöðvast vegna uppsagnanna og hefur verið bent t.d. á seiðaeldisverkefni stofnunarinnar þar sem þeir eru að athuga ferskvatn vítt og breitt um landið. Þó að hér eigi að vera að spara getur því vel verið að þegar upp er staðið verði fjárhagslega tjónið enn meira en ef haldið væri svolítið betur á málum og undirbúið örlítið betur það sem verið er að gera.